Gamalt og gott

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.

Þegar maður hugsar til baka um árið sem er að líða man ég í fljótu bragði ekki eftir neinu merkilegu sem gerðist á árinu. Ég man bara ekki neitt, tíminn er svo fljótur að líða. Ég held að ég sé ekki sá eini, enginn virðist muna eftir neinum öðrum en Mugison í öllum kosningum á manni ársins, sem eru svo vinsælar á þessum tíma. Frábært framtak hjá honum og virkilega skemmtilegur tónlistarmaður en ég veit ekki með maður ársins. Þetta voru bara tónleikar, hann var ekki að bjarga mannslífum. Ætli ég sé samt ekki bara bitur af því að allir fengu miða á tónleikana nema ég. Ég hugsa hvort sem er bara um íþróttir og þá aðallega fótbolta þannig að ég held mig bara á vellinum en ekki á sviðinu.

Því miður hef ég ekki marga punkta sem ég vil rifja upp með mínu liði frá árinu. Við byrjuðum reyndar vel og unnum hinn gríðarlega eftirsótta Fótbolti.net bikar sem var fyrsta mót ársins. Eftir það lá leiðin niður á við. Sem betur fer björguðum við andliti og héldum okkur í deildinni. Jákvætt samt að margir ungir leikmenn fengu mikilvæga reynslu sem á eftir að nýtast okkur vel í framtíðinni. Grindvíkingar björguðu sér svo á smátt ævintýralegan hátt í síðasta leik. Ekkert nýtt þar á bæ. Fengu svo nýjan þjálfara sem er sérstaklega vinsæll í vinabænum Keflavík. Alltaf líf í kringum hann svo það verður spennandi að fylgjast með þeim næsta ár. Önnur lið á svæðinu eru áreiðanlega ekki alveg sátt með sinn árangur heldur í ár og vilja meira á því næsta.

Það má alveg minnast á að það er spilaður handbolti í Reykjanesbæ sem er ákveðinn árangur út af fyrir sig þar sem hefðin fyrir því er lítil sem engin. Öllu meiri hefð er fyrir körfubolta þar sem að flest lið á svæðinu náðu ágætis árangri einu sinni sem oftar. Ekkert lið komst þó með tærnar þar sem kvennalið Keflavíkur hafði hælana og það er sama í hvaða íþrótt um er rætt. Þær urðu Íslandsmeistarar í öllum flokkum, frá meistaraflokki og niður. Árangur sem Kim Jong Il hefði verið stoltur af. Maður sem sagði þegnum sínum í fullri alvöru að hann hefði spilað 18 holu hring í golfi á 38 höggum. Honum hefði ekki einu dottið í hug að reyna ljúga því að hann ætti svona góð körfuboltalið. Þetta tókst stelpunum og mega allir þeir sem koma að kvennakörfunni í Keflavík vera gríðarlega stoltir af þessu magnaða afreki sem verður seint eða aldrei slegið.

Þá er ekkert annað eftir en að skjóta síðustu krónunum mínum upp í loft á gamlárskvöld. Um að gera að fullnýta heimildina fyrst ég náði því ekki fyrir jólin. Það er svo „2007“ að eiga pening og borga af lánum, nú er það bara asnalegt. Vona að sem flestir eigi frábær áramót og byrji nýja árið með stæl. Það er í það minnsta alltaf hægt að reyna að gera betur. Takk fyrir það gamla.