Ferðasaga

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Um síðustu helgi fórum við í Keflavíkurliðinu í æfingaferð. Það hefur tíðkast í mörg ár að lið haldi til útlanda stuttu fyrir mót til að peppa mannskapinn upp, bæði fótbolta- og móralslega. Vinsælast hefur verið að fljúga suður á bóginn til heitari landa svo sem Spánar og Portúgal. Við fórum ekki jafn langt suður, við fórum til Víkur í Mýrdal.


Það var haldið af stað í sól og blíðu á sumardaginn fyrsta. Menn fóru á einkabílum og þeir yngri drifu sig á leiðarenda á meðan Hilmar tók sér meiri tíma og naut landslagsins með nokkrum reyndari mönnum. Menn komu sér fyrir á Hótel Vík sem hugsaði afbragsðvel um okkur alla helgina. Létt æfing var tekin seinnipartinn þar sem einhverjir skokkuðu úr sér súran leik frá deginum áður. Hinir spiluðu ungir á móti gömlum. Einu vonbrigðin voru töluvert rok sem við úr Sunny Kef eigum ekki að venjast. Ágætt að æfa sig í rokinu samt fyrir leikina upp á Skaga og út í Eyjum. Kvöldið fór í almennt hótelhangs með tölvuleiki og spilastokka í aðalhlutverki. Teddi og Beggi fóru strax að vinna í því að vera með skítugasta herbergið.


Menn mættu misferskir í morgunmatinn daginn eftir. Halli Gumm kvartaði undan hrotum í herbergisfélaganum. Þá fékk Maggi Þór svo heiftarlega martröð að hann og Viktor sváfu lítið það sem eftir var ferðarinnar. Fyrri æfing dagsins var í rólegri kantinum, Kiddi Björns skokkaði í hringi og hafði yfirumsjón með hlutunum. Seinni æfingin var hressilegri. Við fengum að sjá Ingó Veðurguð æfa með Sameinuðu Þjóðunum sem áður hét Selfoss. Þeir voru einnig staddir þarna í mekka æfingaferðanna þessa helgi. Yngri og eldri spiluðu aftur. Mesta lukku vakti Sævar Júlíusson á föstudeginum þegar hann skilaði sér heilu á höldnu til Víkur á Rauðu Þrumunni. Það voru ekki margir sem höfðu trú á því en bíllinn er jafn þrjóskur og eigandinn. Um kvöldið fengu svo nokkrir ungir drengir að kenna á visku Jóhanns Guðmundssonar í Fótboltaspilinu.


Menn voru þreyttir á laugardeginum en hresstust fljótt við þegar Ási mætti í stuttbuxum sem hann saumaði í 7. bekk í morgunmatinn. Aftur var róleg æfing fyrripartinn. Bræðurnir úr Harlem, þeir Ísak og Kiddi, fóru í íþróttahúsið og sýndu ótrúleg tilþrif við körfuna. Ég treysti Ísaki fyrir því að setja það á netið innan tíðar. Þeir sem ekki voru komnir með nóg af fótbolta horfðu á enska boltann milli æfinga. Fyrir seinni æfinguna reyndi Bojan við íslandsmetið í þrístökki. Hann dreif ekki í sandinn. Eldri og yngri mættust í frábærum leik þar sem eldri fóru með sigur af hólmi með Gunnar nokkurn Oddsson sem (h)elsta mann. Steini fékk brunasár. Dói stóð svo fyrir æsilegasta dansleik sem sést hefur í Vík þegar hann greip í nikkuna um kvöldið.


Á sunnudeginum var tekin ein æfing áður en haldið var heim á leið. Jói Ben vildi reyndar horfa á Man United leikinn fyrst. Við hinir í bílnum sögðum honum að þetta yrði hundleiðinlegur leikur og auðveldur fyrir United í þokkabót. Hann missti af leik ársins. Annars var þetta virkilega vel heppnuð æfingaferð. Hótelið til fyrirmyndar, æfingaaðstaðan fín og allir á staðnum tilbúnir að gera ferðina sem besta fyrir okkur. Hver þarf sól og strönd á Spáni þegar þú hefur fjöllin og fólkið í Vík.