Af hverju aldrei ég?

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Pulsa með öllu er einhver íslenskasti réttur sem til er. Slátur, hrútspungar og svið kemst ekki með tærnar þar sem pulsa með öllu hefur hælana. Spyrjið bara Bill Clinton, hann fékk sér reyndar bara með sinnepi. Hann gerði svo sem hluti sem voru skrítnari en það. Sumir vilja líka segja pylsa en ekki pulsa. Það er fullt af skrítnu fólki. Pulsa er kannski ekki hollasti matur sem þú lætur ofan í þig. Mikið ofsalega er samt gott að detta inn á einhverja af sjoppum bæjarins og fá sér eina með öllu. Biðin eftir pulsunni reynist mér samt oft dýrkeypt. Ég veit vel að hún er ekki löng en ég er af nintendo-kynslóðinni sem hefur almennt jafn mikla þolinmæði og einbeitingu og gullfiskur.


Þar sem ég stend í biðinni endalausu eftir pulsunni gómsætu verður oft lotto standurinn í sjónlínunni. Lotto, víkingalottó, 1x2 og lengjan. Endalaus loforð um gull og græna skóga. Milljónir án nokkurar fyrirhafnar, nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Ég tek yfirleitt lengjumiðann og segi við sjálfan mig að ég ætli bara að sjá hvaða leikir eru á næstunni.


Ég skoða leikina og er nánast undantekningalaust búinn að finna einn til tvo nánast örugga leiki til að spila á. Leikir sem hreinlega ekki er hægt að klikka á. Þá er bara eftir að finna eins og einn til tvo leiki til viðbótar að spila á til að geta keypt miðann. Þar sem ég get ekki einu sinni beðið þolinmóður eftir pulsunni minni þá vel ég alltaf leiki sem spilaðir eru samdægurs. Skiptir þá litlu hvort að það er enska utandeildin eða rússneska íshokkíið sem ég hef jafn mikið vit á og kínverskum fornbókmenntum.


Ég tel mig vera sæmilega skynsaman mann. Ég ætti alla vega að hafa eitthvað smá vit á fótbolta. Þegar ég er ekki að spila fótbolta, þjálfa fótbolta eða horfa á fótbolta, þá er ég yfirleitt að tala um fótbolta, hugsa um fótbolta eða undirbúa mig fyrir fótboltaleik. Hvernig stendur þá á því að ég get ekki fyrir mitt litla líf tippað rétt á örfáa fótboltaleiki á lengjumiðanum. Leiki sem voru svo pottþéttir að ég sá engan annan kost en að spila á þá. Það hefði verið peningasóun að spila ekki á þá. Það eru alltaf sömu vonbrigðin þegar miðinn gengur ekki upp vegna þess að ég er svo öruggur um sigur.


Ég á fullt af vinum sem virðast alltaf vera að vinna á lengjunni. Þeir eru alla vega duglegir að láta vita þegar þeir vinna. Af hverju aldrei ég? Ætli það sé ekki vegna þess að ég er svangur þegar ég vel leikina. Eins og aðrir karlmenn er ég ekkert sérstaklega skynsamur þegar garnirnar gaula. Það er ekki að ástæðulausu að flestar konur fara með mennina sína fyrst á stjörnutorgið þegar farið er í Kringluna að versla. Þannig að lengjumiðinn endar nánast alltaf með vonbrigðum en pulsan er í það minnsta alltaf jafn góð.