177 ARMBEYGJUR!

Ómar Jóhannsson, markvörður og starfsmaður í Fríhöfninni sparkar pennanum fram á ritvöllinn.


Afreksfólk af Suðurnesjum finnst víða. Skólahreysti er einn vettvangur þar sem krakkar af Suðurnesjum og öllu landinu hafa látið ljós sitt skína síðustu ár. Við í Reykjanesbæ getum verið sérstaklega stolt af árangri okkar krakka í þessari keppni þar sem við höfum átt sigurvegara keppninnar í tvígang á síðustu þremur árum. Árið 2009 vann Heiðarskóli með glæsibrag og svo 2011 vann Holtaskóli hörkukeppni það árið. Í liði Holtaskóla það ár var einmitt einn knattspyrnumarkmaður úr röðum Keflavíkur, Eyþór Guðjónsson að nafni. Annar Eyþór, en sá er Júlíusson á svo Íslandsmetið í upphífingum, litlar 58 upphífingar, sem hann setti fyrir Myllubakkaskóla árið 2009. Þess má til gamans geta að hann hefur einnig lagt stund á markvörslu með Keflavík en markmenn Keflavíkur hafa lengi verið annálaðir fyrir sérstaklega gott líkamlegt atgervi og almennt hreysti.


Eyþór Júlíusson á svo yngri systur sem heitir Jóhanna Júlía. Hún gerði sér lítið fyrir og setti eitt svakalegasta Íslandsmet sem ég veit um í undankeppni skólahreystis um síðustu helgi. 177 armbeygjur! Gamla Íslandsmetið var 107 armbeygjur sem var sett sama dag en það er síður en svo slæmur árangur. Armbeygjurnar þarf að gera með fæturnar ofan á 30 cm háum palli. Halda þarf í handföng og ekki má hvíla í meira en 3 sekúndur á milli armbeygja. Rétta skal úr höndum og fara niður í 90 gráður með beinan líkama. Dómari fylgist svo með að þetta sé allt rétt gert. Allir sem reynt hafa við hefðbundnar armbeygjur á jafnsléttu sjá að þessar eru töluvert erfiðari en þær, sem gerir afrekið enn merkilegra.


Mér fannst þessi árangur hennar svo merkilegur að ég leitaði á netinu að heimsmetinu í armbeygjum. Í þessari mjög svo vísindalegu rannsókn minni þar sem ég naut dyggrar aðstoðar Google vinkonu minnar komst ég að ýmsu merkilegu. Því miður fann ég engar upplýsingar um heimsmet í samskonar armbeygjum og Jóhanna Júlía setti Íslandsmetið í. Heimsmetið í armbeygjum á jafnsléttu án þess að stoppa var hins vegar ansi athyglisvert svo ekki sé meira sagt. Japaninn Minoru Yoshida setti það árið 1980 og sá sem giskaði í huganum á 10.507 hafði rétt fyrir sér. Flestar armbeygjur á einu ári voru ekki nema 1.500.230, það setti Paddy Doyle frá Bretlandi. Skemmtilegasta metið hlýtur samt að tilheyra Johann Schneider frá Austurríki. Hann gerði 112 armbeygjur á hráum eggjum án þess að brjóta þau.


Hvað sem ofurmannslegum og stórskrítnum heimsmetum líður er Íslandsmet Jóhönnu Júlíu stórglæsilegt (og pottþétt heimsmet miðað við höfðatölu). Þeir sem taka þátt í skólahreysti skrifa undir samning þess efnis að þau heita því að hvorki neita tóbaks né annarra vímuefna a.m.k. þar til skólahreysti lýkur eða eins og lög gera ráð fyrir. Virkilega flott framtak hjá öllum þeim sem að skólahreysti koma.

Þegar maður verður eldri á maður það til að hneykslast á yngri kynslóðum. Allt var svo miklu betra þegar maður sjálfur var ungur en það er í dag. Krakkar voru duglegri og kurteisari og allskyns kjaftæði. Fjarlægðin gerir fjöllin blá. Maður á það til að fegra hlutina í minningunni. Því lengri tími sem líður, því betri verða tímarnir. Þá er virkilega gott að láta minna sig á það með svona fréttum að allt var ekki betra í gamla daga þó síður sé.