Aðgát í nærveru sálar

Fótbolti er vettvangur tilfinninga sagði mætur þjálfari við mig eitt sinn. Það er mikill sannleikur í því. Fullorðnir menn og konur hlæja, faðmast, slást og gráta útaf fótbolta hvort sem það er inni á vellinum eða uppi í stúku. Margir hafa borgað sig inn á leikinn sérstaklega til þess að fá að tjá tilfinningar sínar um leikmennina, dómara, bílastæðin, þjálfarann eða í raun hvað sem við kemur leiknum og ekki. Stúkan er staður þar sem menn tjá sig hátt og snjallt hvort sem er með öskrum eða söng og það þykir hið besta mál.

En ef menn hafa borgað sig inn á leikinn dýrum dómi mega þeir þá segja hvað sem er við hvern sem er? Kannski er þetta bara væl í mér þar sem að ég er oftast inni á vellinum og fæ þess vegna ekki að tjá mig um hitt og þetta sem tengist leiknum heldur eru menn að tjá sig um mig og mína félaga. Mér finnst í það minnsta ekki í lagi að segja allt sem mönnum dettur í hug og við alla aðra í stúkunni. Langstærstur hluti fólks sem kemur á íþróttaleiki gerir það með það í huga að njóta leiksins og styðja sitt lið. Því miður eru alltaf einhverjir sem gera það ekki eða missa sig örlítið í gleðinni á leiknum.

Dómari leiksins á oft sérstakan sess í hjörtum þessara stuðningsmanna. Orðbragðið sem menn nota til þess að lýsa skoðunum sínum á honum er þess háttar oft á tíðum að bíómynd með þannig orðbragði væri bönnuð innan 18 ára. Á sama tíma situr fjöldinn allur af ungum drengjum og stúlkum allt í kring og læra hvernig á að haga sér á kappleikjum. Svo förum við heim og skiljum ekkert í talsmátanum hjá unga fólkinu í dag.

Ísland er ekki stórt land og meðaláhorfendafjöldinn á íþróttaleikjum eftir því. Af þessum mismörgu áhorfendum er svo oft stór hluti mjög tengdur þeim sem inni á vellinum eru. Þar eru foreldrar, systkini, börn, frændur, frænkur, vinir og kunningjar leikmanna. Fólk ætti að hugsa aðeins út í það næst þegar menn kvarta við hvern sem heyrir af hverju þessi sé í liðinu, að einhver annar geti ekki neitt eða þaðan af verra. Aðgát skal höfð í nærveru sálar er klisja sem mér finnst eiga ágætlega við.
Sérstakar stuðningsmannasveitir hafa sprottið upp á síðustu árum í kringum mörg lið í fótboltanum og einnig í körfunni. Pumasveitin, Mafían og Silfurskeiðin til að nefna nokkrar. Þessar sveitir hafa gert gríðarlega mikið fyrir fótboltann sem er það dæmi sem ég þekki best. Þeir veita ekki bara liðinu sínu mikinn stuðning heldur gera þeir upplifun fólks sem mætir á leikinn töluvert skemmtilegri með söng og hljóðfæraleik.

Íþróttir eru vettvangur tilfinninga og ef menn þola ekki gagnrýni þegar þeir spila þá ættu þeir frekar að vera heima að lesa nýjustu bókina eftir Arnald. Stuðningsmenn mega alveg og eiga að láta liðið sitt vita þegar það er að spila illa en að sama skapi er það oftast á slíkum stundum sem það þarft mest á stuðningi að halda. Eitt af því skemmtilega við íþróttir er að allir geta haft skoðun á hlutunum sem á jafn mikinn rétt á sér og hjá sérfræðingunum í stúdíóinu. Þú ættir bara kannski að hugsa þig tvisvar um áður en þú segir það upphátt og þá hvernig þú segir það.