Svæðisleiðsögunám í haust

 
 
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum mun bjóða upp á nám í haust í svæðisleiðsögn um Reykjanes.
Námið er fyrir þá sem vilja starfa sem leiðsögumenn á Reykjanesi og nágrenni, það nýtist einnig vel þeim sem starfa nú þegar í greininni, m.a. starfsfólki ferðaskrifstofa, upplýsingamiðstöðva, hópferðafyrirtækja, gestamóttöku hótela o.s.frv. Námið er ekki síður áhugavert fyrir alla þá sem hafa áhuga á að vita meira um Reykjanesskagann hvort sem það er náttúran, sagan eða jarðfræðin.
Umsækjendur þurfa að vera orðnir 21 árs við upphaf námsins. Þeir þurfa að hafa stúdentspróf eða sambærilegt nám að baki ásamt því að hafa mjög gott vald á einu erlendu tungumáli, auk íslensku.
Hluti námsins fæst metinn til hefðbundins leiðsögunáms svo þeir sem vilja geta komið síðar í Leiðsöguskólann og öðlast fullgild leiðsöguréttindi.
 
Umsóknarfrestur er til 9. september og kennsla hefst mánudaginn 28. september. Kennt er tvö kvöld í viku: mánudaga og miðvikudaga auk þess sem farnar eru æfingaferðir um helgar. Kennt er í húsnæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum að Krossmóa 4 í Reykjanesbæ og fer kennslan fram á íslensku. Umsækjendur taka inntökupróf í því erlenda tungumáli sem þeir vilja leiðsegja á en einnig er hægt að velja íslensku sem kjörmál. Megináhersla er lögð á náttúru, menningu og sögu Reykjanesskagans og nágrennis, auk þess sem áhersla er lögð leiðsögutækni og hagnýta þjálfun fyrir starfið í vettvangsferðum.
Nánari upplýsingar á www.mss.is
Rannveig L. Garðarsdóttir leiðsögumaður