Stapagatan var gengin í góðu veðri

Það var fjölmennur hópur sem mætti í fyrstu Reykjanes-göngu sumarsins. Veðrið var gott einsog jafnan er á miðvikudögum. Byrjað var að ganga við (Innri) Njarðvíkurkirkju og gengið með ströndinni að tóftum Stapakots, þar sagði leiðsögumaður frá miklum draugagangi á Stapanum.
Genginn var malbikaður stígur upp að gömlum fiskitrönum fyrir ofan byggðina, þar var farið út á gömlu Stapagötuna og hún þrædd áfram þar til hún hverfur undir gamla Keflavíkurveginn á litlum kafla. Stapagatan var notuð þar til bíllinn kom til sögunnar. Fyrst einungis fyrir gangandi svo fyrir hestvagna og síðan fyrir bílaumferð. Keflavíkurvegurinn var tekinn í notkun árið 1912 þá var hann einungis hestvagnafær vegur, ári síðar braust fyrsti bíllinn eftir þessum vegi og síðan hefur hann verið í stöugri stækkun og er enn í dag.
Þegar gönguhópurinn var kominn aftur inn á Stapagötuna áleiðis að Grímshól hæsta punkti Stapans fór að bera á ókennilegri lykt í loftinu, fólk var ekki sammála um af hvaða skepnu þetta væri en ljóst var að þessi úrgangur kæmi úr óæðri enda einhverrar lifandi veru. Gönguhraðinn jókst til muna einnig því næsta stopp var kaffistopp. 
Áð var við Grímshól þar sem leiðsögumaður las þjóðsögu um huldufólk í Grímshólnum. Eftir kaffi var gengið fram af Stapanum niður að gömlum tóftum og að Hólmabúðum þar sem Haraldur Böðvarsson útgerðarmaður byrjaði sína útgerð, þar fann göngufólk þrjú gæsahreiður sem voru mynduð frá öllum hliðum.
Brekkan upp á Stapann aftur reyndist léttari en margir héldu í fyrstu og voru margir sem önduðu léttar þegar upp var komið.
Gengið var niður Reiðskarð sem var eini staðurinn sem óhætt var að fara með hesta upp á Stapann, þar sagði leiðsögumaður frá ungri konu sem hitti huldukonu á leið sinni um Reiðskarðið.
Þegar komið var á endapunkt var létt yfir hópnum sem hafði þá gengið 8 km á 2 kls og 45 mín.