Skemmtileg göngumessa í Húshólma

Vel tókst til með göngumessuna í Húshólma, 29 manns mættu og tóku þátt í þessari skemmtilegu göngu í frábæru veðri í gær. Gangan mældist 8,6 km. Helgistund var í gömlum minjum kirkjunnar en talið er að hraunið hafi runnið að henni um árið 1150.

„Áttum yndislega stund þar í góðu veðri og leyfðum sögunni sem kynslóðir á undan okkur hafa mótað í árþúsundir að leika um okkur á þessum söguslóðum. Daníel Jónsson fræddi okkur um minjarnar og Hinrik Bergsson sló á létta stengi. Á heimleiðinni var gengið niður að sjó og var stórbrotið að virða fyrir sér sköpunina sem þar við blasti. Krísuvíkurbergið var fagurt á að líta og náttúran skartaði sínu fegursta skarti. Þegar heim kom fengum við okkur kaffi og meðlæti í safnaðarheimilinu undir öruggri stjórn kirkjuvarðarins Birnu sem var snögg að bera kræsingar á borðið,“ sagði sr. Elínborg Gísladóttir.

Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.