Röskur hópur gekk á Keili

Miðvikudaginn 4. júlí gekk rösklegur hópur á Keili með Reykjanesgönguferðum undir leiðsögn Rannveigar Garðarsdóttur. Ekið var að Höskuldarvöllum þar sem gangan hófst,  gengin var gömul þjóðleið frá Oddafelli að Keili og þaðan upp á topp þar sem göngufólk naut útsýnis til allra átta.

Niðurgangan gekk greiðlega og áfallalaust þrátt fyrir lausamöl og örlítillar lofthræðslu gætti hjá einstaka göngumanni. Þegar komið var niður í neðstu hlíðar fjallsins uppgötvaði leiðsögumaður að hann hefði gleymt bakpokanum sínum uppi á toppi og ekki var um annað að ræða en að ganga á fjallið aftur til að sækja pokann, lagði leiðsögumaður af stað við annan mann upp fjallið þeim til mikillar gleði mættu þeir tveimur félögum frá Björgunarsveitinni Suðurnes sem höfðu verið með hópnum og voru á niðurleið höfðu þeir tekið eftir þessum gleymda poka uppi og báru hann með sér niður. Það var sæll og ánægður hópur sem lagði af stað heimleiðis undir miðnætti eftir ævintýri kvöldsins.