Reykjanes Gönguhópurinn á Keili

 
Miðvikudaginn 15. júlí gekk Reykjanes Gönguhópurinn á Keili. Gengið var frá Höskuldarvöllum meðfram Oddafellinu þaðan yfir gróft hraunið að fjallinu. Á leiðinni sagði leiðsögumaður frá landnámi Steinunnar “gömlu”, hún gaf Eyvindi frænda sínum og fóstra hluta af sínu landi, hann gerði jarðaskipti við annan og flutti sig um set. 
Uppgangan á Keili gekk vel, þegar komið var í miðjar hlíðar fjallsins fór hópurinn að veita flugvél athygli sem sveimaði yfir fjallinu, þarna reyndist vera þekktur ljósmyndari frá Víkurfréttum sem myndaði hópinn og fjallið frá öllum hliðum enda veðrið og skyggnið einsog best var á kosið.
Þegar upp var komið var skrifað í gestabók sem þar er geymd, drukkið nesti og notið útsýnisins. 
Niðurgangan var mörgum erfiðari en uppgangan en allir komust heilir niður á sléttann flöt. Það var farið að bregða byrtu þegar gengið var til baka og þótti mörgum leiðin hafa lengst frá því fyrr um kvöldið. 
Á heimleiðinni voru þreyttir en ánægðir göngugarpar sem horfðu á Keili baða sig í kvöldsólinni vitandi það að hafa sigrað toppinn þetta kvöld.
Rannveig L. Garðarsdóttir leiðsögumaður