Reykjanes gönguhópurinn á Fiskidalsfjalli

 
 
Miðvikudaginn 29. júlí gekk Reykjanes - gönguhópurinn á Fiskidalsfjall og Húsafell í blíðskaparveðri einsog ávallt hefur verið á miðvikudagskvöldum í sumar með einni undantekningu þó. 
Gengið var upp frá Siglubergshálsi og gekk uppgangan vel enda vant göngufólk á ferð. Þegar upp var komið naut hópurinn útsýnis í allar áttir þar sem leiðsögumaður sagði frá fjallasýn. Skófatnaður eins göngumanns vakti athygli fólks og voru fæturnir myndaðir frá öllum hliðum enda ekki um venjulega fjallaskó að ræða heldur opna sandala og var viðkomandi berfættur í þeim en eigandinn var vanur fjallgöngumaður og lét sér fátt um finnast.
Borðað var nesti í hlíðum Fiskidalsfjalls þar var hópurinn fræddur um “tyrkjaránið” og um skipsströnd á þessu svæði. Gengið var upp á Húsafell þar sem fólk var myndað í öllum stellingum með fagurt útsýni í bakgrunn. Þægilegt var að ganga eða hlaupa niður hlíðar Húsafjalls þar sem rútan beið hópsins.
Leiðsögumaður var Rannveig L. Garðarsdóttir