Reykjanes göngugarpar gengu frá Sandvík að Eldvörpum

Miðvikudaginn 9. júní gekk Reykjanesgönguhópurinn frá Sandvík að Eldvörpum í mjög óvenjulegu miðvikudagsveðri því skýjað var og skúrir.  Gengið var rösklega yfir sand og auðn þar til komið var að gatnamótum Reykjavegar og Prestastígs þá var fastara undir fótinn og allt gekk betur. Á Prestastíg má víða sjá klappað í bergið eftir hófa og fætur sem gengu þennan stíg á árum áður, gatan er mjög greinileg og vel vörðuð alla leiðina frá Höfnum  að Staðarhverfi.  Hópurinn fékk nestisstopp í fallega gróinni laut, þegar leiðsögumaður steig upp til að tala þá gerði svo hressilegan rigningarskúr að allir áttu fótum fjör að launa og drifu sig útúr skýfallinu, ákveðið var að halda seinna kaffi á þurrum stað sem fannst undir Rauðhól.  Þaðan var sveigt útaf Prestastíg og tekinn stígur sem liggur að Eldvörpum.
Það voru þreyttir og blautir ferðalangar sem komu í rútuna við Eldvörp eftir um tveggja og hálfs tíma göngu.

Rannveig L. Garðarsdóttir leiðsögumaður