Norðurljósin skoðuð í ágúst

Suðurnesjamenn geta líklega orðið vitni að norðurljósasýningu eftir myrkur í kvöld ef veðurspá verður hagstæð. Spáð er léttskýjuðu veðri þannig að norðurljósa-útkikk um miðnættið ætti að geta borið árangur. Áhrifa af stóru sólgosi um helgina gætir nú á jörðu en það hefur í för með sér aukna virkni norðurljósa.

Sumum kann að þykja undarlegt að norðurljós séu í byrjun ágúst og tengja tilurð þeirra frekar við vetur og frost.  Norðurljósin hafa hins vegar ekkert með það að gera. Þau eru í raun til staðar allt árið um kring en við sjáum þau hins vegar betur í skammdegi vetrarins.

Frá sólinni berst í sífellu svonefndur sólvindur sem er straumur rafhlaðinna agna. Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.
Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós eftir því hvoru megin á hnettinum við erum stödd. 

Á vef Geophysical Institute er hægt að skoða norðurljósaspá nokkra daga fram í tímann á mismunandi svæðum. Á vefnum núna má sjá að spáin fær fjóra á skalanum 1-10 eða Active og þykir það nokkuð mikið. Þeir sem fylgjast með þessum spám, t.d. ljósmyndarar og ferðaþjónustuaðilar sem gera út á norðurljósaferðir, kætast yfirleitt yfir því þegar skalinn nær upp í 2-3.

Til að sjá norðurljósin sem best er gott að fara út fyrir bæjarmörkin þar sem minni ljósmengun er. Til dæmis er vinsælt að fara út í Krýsuvík eða jafnvel bara út í Sólbrekkuskóg þar sem hamrabeltið skyggir á ljósmengunina.

Norðurljósaspá Geophysical Institute: http://www.gedds.alaska.edu/AuroraForecast/


Efri mynd – Norðurljós yfir Sólbrekkuskógi. Ljósmynd/elg.

Neðri mynd: Sjaldgæft er að sjá norðurljósaspár fara þetta hátt á skalanum.