Metþátttaka í Reykjanesgöngum í sumar

Metþátttaka var í Reykjanesgöngum í sumar og tóku rúmlega 500 manns þátt í göngunum.   Boðið var upp á 10 göngur og var gengið um marga áhugaverðustu og fallegustu staði Reykjanesskagans.

Göngurnar voru undir leiðsögn Rannveigar Garðarsdóttur og sagði hún að þær hefðu verið afar vel heppnaðar. „Aukinn áhugi á göngunum er  til marks um áhuga fólks á Reykjanesskaganum sem býr yfir stórkostlegri náttúru. Fjölbreytnin er mikil, meðal annars var gengið um Hundrað Gíga Garðinn þar sem sjá má gígaraðir og einnig um stórbrotna strandlengju svæðisins,“ segir Rannveig.
Víðir Jónsson, kynningarstjóri HS Orku hf og Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa Lónsins hf, sögðu að það væri ánægjulegt fyrir fyrirtækin að styðja við göngurnar. „Starfsemi beggja fyrirtækja þ.e. HS Orku hf og Bláa Lónsins hf., byggir á jarðvarma sem er mikilvægur þáttur einstakrar náttúru Reykjanesskagans.

Síðasta ganga sumarsins fór fram miðvikudaginn 15. ágúst.  Í lok göngu var þátttakendum boðið í Blue Lagoon Spa þar sem þeir endurnýjuðu kraftana. Vinningar voru dregnir út og hlutu þrír þátttakendur glæsilega vinninga sem voru, Blue Lagoon dekurdagur,  Prima loft úlpa frá 66°Norður og Blue Lagoon vörugjöf.

Aðalstyrktaraðilar verkefnisins eru Bláa Lónið, HS Orka hf og HS Veitur hf. Samstarfsaðilar eru, Víkurfréttir, Hópferðir Sævars, Björgunarsveitin Suðurnes og 66°Norður.