Menntavegurinn var genginn í blíðskapar veðri

Fimmta Reykjanes - Gönguferð sumarsins var farin miðvikudaginn 24. Gengið var frá Keflavík út í Innri Njarðvík.
Þráður göngunnar var aðdragandi skólahalds á þessum stöðum, var það vel við hæfi því Jón Þorkelsson sem fæddur var í Innri Njarðvík var einn af frumkvöðlum að skipulagðri lestrarkennslu í landinu.
Gengið var frá SBK að fyrsta skólahúsi í Keflavík sem var notað frá 1897 – 1911, þaðan var gengið að skólanum við Skólaveg sem var vígður árið 1911. Þrædd var gönguleið sem börnin úr Njarðvík gengu til að sækja skóla í Keflavík.  Staldrað var við í ytri -Njarðvík þar sem leiðsögumaður sagði frá skólahaldi í Höskuldarkoti og Svarta skóla, eitthvað snérust staðsetningar í höfði leiðsögumanns en hópurinn var fróðleiksfús og benti honum góðlátlega á hvernig þetta sneri allt saman.
Gengið var út að Fitjum sem voru einn aðal farartálmi barnanna sem gengu í skólann. Leiðsögumaður sagði sögur af  nokkrum börnum sem lentu í erfiðleikum og ævintýrum á ferð sinni um Fitjarnar.
Staldrað var við í Stekkjarkoti og farið yfir sögu ábúenda þar. Gengið var áfram nýlegur göngustígur út í (Innri) Njarðvíkurkirkju, á þeirri leið var sögð saga skólahalds í Innri Njarðvík sem hófst um 1876 þegar kennt var í Hákoti, áður en stúkan Djörfung tók við skólahaldi og byggði lítið hús á jörðinni Akri og hélt hún úti skólahaldi þar til árið 1906 að litla húsið var rifið, það hafði verið byggt af vanefnum og því hvorki einangrað fyrir vindi né regni.
þegar komið var á leiðarenda beið strætóbifreið hópsins sem virtist þægilega þreyttur og klyfjaður af fróðleik  um skólamál í Keflavík og Njarðvík, enda var leiðsögumaður orðin hálfhás af ofnotkun orða.
Rannveig L. Garðarsdóttir, leiðsögumaður