Má bjóða þér gott útsýni?

Þó Keilir sé langt frá því að teljast til hæstu fjalla býður hann upp á gott útsýni enda vinsæll meðal göngufólks og útivistarunnenda. Vinsældir hans hafa aukist stórum síðustu ár sem sést kannski best á því að umsjónarmenn gestabókarinnar þar uppi þurfa æ oftar að skondrast upp fjallið til að skipta um bók. 

Sumir fullyrða að Keilir sé eitt besta útsýnisfjall landsins . Strýtulögun hans  er áberandi í landslaginu enda hefur hann frá fornu fari verið helsta mið fiskimanna við Faxaflóann. 

Á síðasta ári var veglegri útsýnisskífu komið fyrir á toppi Keilis og stóðu Ferðamálasamtök Suðurnesja að því verkefni. Á henni eru 87 örnefni allt frá Snæfellsjökli í 123 km fjarlægð og Tröllakirkju í 105 km fjarlægð að Fjallinu eina og Trölladyngju í 3,5 km. fjarlægð, Eldey í 44 km fjarlægð og Litla-Skógfelli í 10 km fjarlægð.

Þegar ganga skal á Keili er farið útaf Reykjanesbrautinni á mislægum gatnamótum hjá Kúagerði. Skilti vísar manni áfam inn á línuveg. Haldið er áfram inn á vegarslóða til hægri handar en hann mætti vera betur merktur. Slóðinn er um 10 km langur, nokkuð grófur en fær fólksbílum ef varlega er farið. Haldið er áfram inn að Höskuldarvöllum, en þar er gamalt borstæði sem fengið hefur hlutverk bílastæðis. Þar hefja flestir gönguna á Keili eða við norðurenda Oddafells.

Vel greinilegur slóði liggur í gegnum hraunið að fjallinu en ganga þarf nokkra stund áður en sjálf uppgangan hefst. Í það heila má reikna með 2-3 tímum í gönguna. Gönguhækkunin er 280 metrar og telst fjallið auðvelt uppgöngu. 

Keilir er 378 metra hár gerður úr móbergi. Hann varð til við eldgos undir jökli á síðasta kuldaskeiði ísaldar. Við gosið hefur myndast gosgeil sem ekki náði upp úr jöklinum og fylltist af gosefnum. Skýrir það lögun fjallsins. Þar sem gos ná upp úr jökli og hraun nær að renna myndast móbergsstapar með flötum kolli eins og t.d. Herðubreið er gott dæmi um.

Sem fyrr segir býður Keilir upp á afar gott útsýni. Í góðu skyggni sést vel út yfir Faxaflóann alla leið upp á Snæfellsnes. Einnig er sérkennilegt að horfa yfir hraunum þakinn Reykjanesskagan með lágum móbergsfjöllum sem standa eins og eyjar upp úr hraunhafinu.

Hér má sjá myndasafn af Keili
http://vf.is/ljosmyndavefur/keilir/1/1/default.aspx

Göngufólk á leið upp á Keili en uppgönguleiðin er vel greinileg eins og sjá má. Ljósmynd/elg.Reynir Sveinsson kominn á toppinn. Í baksýn sést til Trölladyngju og Grænudyngju. Ljósm/elg.