Hið kynngimagnaða Stampahraun

Í Stampahrauni á Reykjanesi er að finna mikilúðlegt og forvitnilegt landslag. Gaman er að rölta um í sandorpnu hrauninu og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn í þessari töfraveröld sem gæti sómt sér vel sem sögusvið í einhverri ævintýrakvikmyndinni. Stampagígana sjálfa er áhugavert að skoða sem og hrauntraðirnar frá þeim.

Stampahraunið yngra rann í Reykjaneseldum frá 1211-1240.  Sú goshrina hófst sennilega í sjó en í henni reis Eldey úr hafi. Stamparnir eru eldborgir sem mynduðust í þessari goshrinu en hún er sú síðasta í röð þriggja megineldgosa sem urðu í síðustu eldgosahrinunni á Reykjanesskaga.  Eldgosavirknin á skaganum kemur í hrinum á um þúsund ára fresti.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun og Kapelluhraun 1151 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Kapelluhraun er frá 1150. Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Ljósmyndir/elg.