Gengið á Sundhnjúk

Það var vaskur hópur sem mætti í 6. Reykjanes Gönguferð sumarsins áætlað var að ganga undir Gálgakletta uppá Sundhnjúk og þaðan upp á topp Svartsengisfells. Veðrið lofaði ekki góðu, þoka og rigningarsuddi. Leiðsögumaður sagði veðrið geta breyst til hins verra þegar upp væri komið og bjó göngufólk sig undir hið versta. Jarðfræðingar frá Hitaveitu Suðurnesja voru með í för . Gengið var eftir hrauntröð upp á upp undir Gálgaklettana, þar sem jarðfræðingarnir fræddu hópinn um jarðfræði svæðisins. Veðrið var ekki eins vont og vænta mátti göngufólki til mikils léttis. Gengið var frá Gálgaklettum upp á Sundhnjúk sem er hæsti gígurinn af  níu km langri Sundhnjúkagígaröðinni. Eftir nestis og fróðleiks-stopp var gengið af stað í áttina að Svartsengisfellinu en þá var þokan orðin svo þétt að varla var hægt að sjá handa sinna skil. Félagar úr björgunarsveitinni Suðurnes voru með í ferðinni og sáu um að gengið var í rétta átt, einnig sáu þau um ýmis viðvik einsog að bera unga, lágvaxna og þreytta göngugarpa á herðunum. Hætt var við að ganga upp á topp Svartsengisfjallsins vegna þokunnar í stað þess var gengið hringinn í kringum fjallið. Veðrið batnaði eftir því sem leið á gönguna og endaði gangan í björtu og fallegu sumarveðri, einsog venjan er á miðvikudagskvöldum. Gangan tók um tvær og hálfa klukkustund.