Fyrsta Reykjanesgönguferð sumarsins tókst vel

 

Reykjanes gönguferðir sumarsins byrjuðu með með fallegu veðri einsog ávallt. Ótrúlegur fjöldi af duglegu göngufólki mætti við SBK, ákveðið og glatt á svipinn því það átti að halda í göngu.  Ekið var í tveimur rútum út að Reykjanesvita þar sem gangan byrjaði. Gengið var fyrst í sandi og hrauni þar til komið var að fyrsta stampinum, þar sagði leiðsögumaður frá Reykjaneseldum sem talið er að hafi brunnið á Reykjanesi í nokkur ár.
Mikill sandur er á þessari leið og fannst mörgum göngumanninum nóg um sandfokið sem þyrlast upp þegar margir ganga á sama stað. Næsti viðkomustaður var borhola nr 29 þar sem jarðfræðingur tók á móti hópnum og fræddi göngufólk um borunina.  Þegar gengið hafði verið helmingur leiðarinnar var tekið nestisstopp mörgum til ánægju og léttis, fékk þá hópurinn fræðslu um upphaf Reykjanesvita og fyrsta vitavörðinn sem hét Arnbjörn Ólafsson. Að nestisstoppinu loknu hélt hópurinn af stað fullur af orku gengið var eftir vegslóða og gengu margir frekar greitt restina enda varð meðalhraði um 4 km á klst sem þótti of mikið og lofar leiðsögumaður hægari takti í næstu göngu, en hópurinn komst heill og sæll í rútuna og sýndist mér vera bros á hverju andliti á heimleiðinni.
Rannveig Garðarsdóttir leiðsögumaður