Fjársjóðir í fjörunni

Náttúruviku á Suðurnesjum lauk um helgina og tókst hún með miklum ágætum að sögn aðstandenda. Boðið var upp á ýmsa nátturutengda upplifun en dagkránni lauk með gönguhátíð um Verslunarmannahelgina undir merkjum AF STAÐ á Reykjanesið. Var mæting í göngurnar góð.

Einn liðurinn í Náttúruviku á Suðurnesjum var fjöruferð með Kristjönu H. Kjartansdóttur frá Bjarmalandi í Garði. Byrjað var á að skoða upplýsingakortin á Garðskaga og fræðast um gróðurfar, fuglalíf og staðhætti á Skaganum. Síðan var fjaran gengin í átt að Miðnesi og út í Lambarif. Fjörulallarnir nutu sín vel í blíðviðrinu og tók gangan um tvo tíma með góðum stoppum og athugunum á því sem fyrir augu bar. Hægt er að mæla með því að fólk geri sér ferð út í Lambarif í næstu fjöruferð, því þar er sandurinn sérstakur og fjaran rík af kuðungum, kröbbum og litríkum skeljabrotum sem gaman er að skoða.