FERLIR býður upp á sunnudagsgönguferðir

FERLIR býður áhugasömu fólki til reglulegra gönguferða um Reykjanesskagann á sunnudögum í sumar undir leiðsögn Ómars Smára Ármannssonar. Sunnudaginn 4. júlí verður gengið frá Seltúni í Krýsuvík að Austurengjahver framhjá Grænavatni og Austurengjahver-Stömpum undir Tindhól.

Austurengjar voru fyrrum slægjuland austurbæja Krýsuvíkurtorfunnar. Þar er einn vatnsmesti gufuhver hér á landi. Litskrúðið á hverasvæðinu er ótrúlega fjölbreytilegt. Til baka verður gengið yfir Vesturengjar að upphafsstað. Mæting við Seltúnið kl. 13:13. Áætlað er að gangan taki 3 klst og 3 mín.

FERLIR hefur farið 1500 markvissar ferðir um svæðið frá upphafi. Árangurinn má m.a. sjá á vefsíðunni - www.ferlir.is. Í þessum ferðum hefur ýmislegt forvitnilegt og fákunnugt borið fyrir augu sem ástæða er til að gefa fleira fólki kost á að njóta.

Reykjanesskaginn er við fótskör meirihluta íbúa landsins og hefur í seinni tíð einnig vakið athygli annarra íbúa þess, einkum fyrir stórbrotna náttúru, sögu og minjar. Svæðið endurspeglar m.a. búsetu- og atvinnusögu þjóðarinnar frá upphafi.

Gengið verður með leiðsögn, en hver þátttakandi verður á eigin ábyrgð. Ferðirnar verða frá 2 til 6 klst. og hefjast kl. 13:13. Lengsta ferðin, um Brennisteinsfjöll, verður þó dagsferð (8 klst). Þátttökugjald í hverja ferð fyrir einstaklinga eldri en 12 ára verður kr. 500-. Eitt gjald fyrir hjón. Arður rennur til góðgerðarmála.

Mynd: Af vef Grindavíkurbæjar.