Ferðasaga Reykjanes gönguhópsins á Þorbjörn

Gengið var á Þorbjörn miðvikudagskvöld
Miðvikudaginn 3. júní gekk Reykjanes gönguhópurinn á Þorbjörn. Lagt var af stað frá SBK kl 19:00 og ekið einsog leið liggur að Baðsvöllum í norðurhlíðum Þorbjarnarfells. 
Gengið var einstigi upp fjallið. Þegar komið var upp á fyrstu brún hafði hópurinn fagurt útsýni yfir allan Reykjanesskagann, veðrið og skyggnið var með besta móti einsog venja er í gönguferðum á miðvikudögum. Eftir myndatökustopp var gengið áfram og stoppað við menjar gömlu ratsjárstöðvarinnar sem var nefnd Vail Camp eftir Raymond T. Vail  sem var fyrsti óbreytti bandaríski hermaðurinn sem lést hér á landi. Þar voru byggðir alls 14 braggar, rafstöð með einum elstu ratsjártækjum Bandaríkjaflotans.  
Gengið var þaðan upp á topp og í gegnum gjá sem klífur Þorbjörn og nefnist Þjófagjá. Í gjánni eru magnaðar klettamyndanir og fjölbreyttur gróður.   Nestisstopp var gert á toppi Þorbjarnar, þar fræddi leiðsögumaður göngufólk m.a um jarðfræði svæðisins. Gengið var niður af Þorbirni sunnan megin eftir greinilegu og góðu einstigi. 
Þegar niður var komið varð ljóst að gengið hafði verið á met-tíma yfir fjallið enda hópurinn svo hress að leiðsögumaður þurfti að halda aftur af nokkrum sem ætluðu að ganga heim til sín þetta kvöld.