Ferðasaga gönguferð Garður Sandgerði

Miðvikudagskvöldið 10. júní gekk Reykjanes - gönguhópurinn ströndina frá Garði til Sandgerðis í blíðskaparveðri einsog venjan er á miðvikudagskvöldum leiðsögumaður var Rannveig L. Garðarsdóttir.
Fjölmennt var í göngunni og greinilega mikill áhugi fyrir gönguferðum þetta árið.
Þessi stóri hópur varð varð að langri línu sem liðaðst eftir ströndinni þegar gengið var af stað frá Garðskaga.
Byrjað var að ganga eftir hreinni hvítri sandfjöru en svo fór að versna undir fótinn þegar ganga þurfti yfir laust fjörugrjót sem sást mismunandi vel. Þegar komið var á móts við Kirkjubólsgolfvöll varð hópurinn að ganga uppúr fjörunni vegna flóðs, uppá útjaðar golfvallarins þar sem hópurinn reyndi að láta fara lítið fyrir sér og tiplaði völlinn á enda, eflaust við litla hrifningu leikmanna á golfvellinum, eigi þau þakkir fyrir.
Þegar yfir golfvöllinn var komið var gert kaffistopp og leiðsögumaður sagði frá viðburðarríkum atburðum sem tengjast sögu Íslendinga sem gerðust á þessum slóðum, einnig var sagt frá landnámsmönnum á þessu svæði.
Eftir kaffistopp var gengið áfram í lausu grjótinu sem reyndist þreytandi til lengdar en alla leið komust allir mismunandi lúnir en flestir vonandi ánægðir.  
Rannveig L: Garðarsdóttir leiðsögumaður