Dagur villtra blóma í Sogum á sunnudaginn

Blómaskoðun verður við Sog við Trölladyngju og Grænudyngju sunnud. 13. júní kl. 13 - 15. Þá er haldinn Dagur hinna viltu blóma um öll Norðurlönd. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð í fögru umhverfi án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma.

Sogin eru litríkt háhitasvæði falið inni á milli fjalla. Þar fara saman litríkar útfellingar, líparít og grænn gróður í hrífandi blöndu sem kemur flestum á óvart sem koma þarna í fyrsta sinn.
Ekið er út af Reykjanesbraut við mislæg gatnamót rétt við Kúagerði þar sem merkt er Vatnsleysustrandarvegur og Keilir. Ekið er malarveginn í átt að Keili. Þegar komið er í malarnámu við háspennulínu er snarbeygt til hægri, gegnum opið bómuhlið og síðan eftir fremur ósléttum vegi um Afstapahraun þar til komið er að Höskuldarvöllum. Áfram er ekið eins langt og vegurinn nær, meðfram Trölladyngju að borholuplani og þaðan áfram upp brekku uns komið er á annað borholuplan. Þar mun hópurinn safnast saman til að skoða gróðurinn. Þar hittið þið leiðbeinendurna, þær Ragnheiði E. Jónsdóttur og Jóhönnu B. Hergeirsdóttur.

Gangan er stutt og auðveld. Gott er að hafa með smá nesti og plöntugreiningarbók ef hún er til á heimilinu – og auðvitað að klæða sig eftir veðri.
Blómaskoðun sem þessi er til fróðleiks og skemmtunar og til að njóta náttúrufegurðar. Allir eru velkomnir – fullorðnir og börn í fylgd fullorðinna -  hvort sem þeir þekkja mikið eða lítið af plöntum. Þeir sem meira kunna miðla hinum. Þeir sem eiga plöntubækur mættu taka þær með. Á staðnum verða eyðublöð til að skrá þær plöntur sem finnast. Niðurstöður verða sendar Náttúrufræðistofnun og eru liður í að kortleggja útbreiðslu plöntutegunda á Íslandi.

Plöntuskoðun sem þessi er framkvæmd um öll Norðurlönd þennan sama dag. Dagur viltra blóma var haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 2004 á 10 stöðum á landinu. Þá komu m.a. 20 blómaunnendur saman á Háabjallasvæðinu, áttu saman frábæra dagstund og tókst í sameiningu að greina u.þ.b. 80 tegundir háplantna, þar á meðal nokkrar sem ekki  höfðu verið skráðar þar áður. Í fyrra var blómaskoðun víða á landinu, m.a. við Hrafnagjá í Vogum.

Frumkvæðið hér á landi kemur frá Flóruvinum undir forystu Harðar Kristinssonar, grasafræðings á Akureyri, sjá  http://www.floraislands.is/blomadagur.htm

---

Ljósmynd/elg - Horft yfir Sogin yfir Móhálsadal í átt að Sveifluhálsi.