Bætt aðstaða í Seltúni

Komið hefur verið fyrir þjónustu- og salernishúsi við Seltún í Krýsuvík. Það mun hafa verið Grindvíkingurinn Óskar Sævarsson, forstöðumaður Saltfiskseturs Íslands og fulltrúi Grindavíkur í Reykjanesfólksvangsnefnd, stuðlaði manna helst að uppsetningu húsanna að því er segir á heimasíðu Ferlis.

Hafnarfjarðarbær og stjórn Reykjanesfólkvangs hafa gert samkomulag um reksturinn. Reykjanesfólkvangur tók að sér að koma upp þessari bættri aðstöðu fyrir ferðamenn við Seltún. Annað húsanna er 40 fermetra skáli og hitt er salernishús þar sem verða fjögur salerni. Áður voru hús þessi staðsett á „Reykjavegi" gönguleið frá Reykjanestá til Þingvalla og hugsuð sem aðstaða fyrir göngufólk. Fólkvangurinn mun næstu þrjú sumur samkvæmt samkomulaginu sjá um rekstur á mannvirkjunum og þjónustu við gesti staðarins. Starfsmaður Reykjanesfólksvangs mun m.a. hafa aðstöðu þarna.

Seltúnið er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en litadýrðin á hverasvæðinu þar er einstök.

Sjá nánar á www.ferlir.is

Efri mynd: Litadýrðin í Seltúni dregur að sér fjölda ferðamanna. Ljósm/elg.

Neðri mynd: Þjónustu og salernishúsin við Seltún. Ljósm./www.ferlir.is