Mánudagur 23. maí 2011 kl. 22:47

Ys og þys í Leifsstöð

Mikið annríki hefur verið á Keflavíkuflugvelli eftir að flugbanni var aflétt. Fyrstu vélarnar fóru í loftið um kl. 18 og um klukkustund síðar komu fyrstu vélarnar inn til lendingar.


Meðfylgjandi myndband tók Hilmar Bragi saman þegar unnið var að innritun fyrir flug í Leifsstöð í dag.


Útlitið fyrir flugumferð fyrir Ísland er gott næsta hálfa sólarhringinn eða svo hið minnsta ef marka má öskuspá, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur upplýsingafulltrúa Isavia í frétt á mbl.is.


Fyrstu flugvélarnar hófu sig á loft frá Leifsstöð um kl. 18 í kvöld eftir rúmlega sólarhrings lokun. „Vellirnir eru opnir núna og miðað við spána lítur þetta allavega vel út fyrir nóttina og fyrramálið, en þetta er auðvitað alltaf bara spá,“ segir Hjördís.


„Eins og staða er núna og þangað til á morgun þá teygir þessi slæða sig yfir Skotland en sleppur hjá okkur. En askan dreifir sér og fer eftir vinum svo ef eldgosið varir getum við auðvitað alveg búist við lokunum aftur." Flugmálayfirvöld munu að óbreyttu funda næst klukkan 10 í fyrramálið til að ákveða framhaldið.


Icelandair hefur aflýst flugferðum til Bretlandseyja á morgun vegna öskuskýs frá Grímsvatnagosinu, sem verður væntanlega yfir Bretlandi á morgun.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að morgunfluginu til Lundúna og Manchester/Glasgow verði aflýst. Hins vegar verði síðdegisferðin til London farin á morgun.


Í fyrramálið er von á vélum frá Bandaríkjunum en Guðjón bendir á að þær séu í töluverðri seinkun. Það muni svo leiða til þess að það verði seinkun á Evrópufluginu.


„Þetta er ekki komið í eðlilegar skorður ennþá.“