X18 - Þórólfur Dagsson: Heilbrigðismál og húsnæðismál
Hvað telur þú að séu stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ að þessu sinni?
Það er náttúrulega heilbrigðisþjónustan hérna á HSS og húsnæðismálin. Þeir eru farnir að hækka leiguverðið upp á Ásbrú. Svo eru það lýðræðismál, að það verði íbúakosningar sem séu bindandi. Svo er það náttúrulega Helguvík, menntamál eru mjög mikilvæg og sérstaklega íþróttaaðstaðan fyrir Njarðvíkinga. Það er lítið um trjágróður í Innri Njarðvík. Svo er það náttúrulega þrýstingur á ríkisstjórnina að klára Reykjanesbrautina, hún er stórhættuleg fyrir okkur. Við eigum ekkert að þurfa að greiða fyrir það að fara í Reykjavík, sérstaklega á meðan heilbrigðisþjónustan er eins og hún er í dag. Það þarf að þrýsta á stjórnvöld að fá fjármagn. Við viljum taka yfir rekstur sjúkrahússins, það er verið að gera það núna á Höfn í Hornafirði og þeir voru að skrifa undir fimm ára samning og það er ákveðið svona tilraunaverkefni. Við viljum auka þjónustustigið, hafa meiri völd á sjúkrahúsinu, geta ráðið þar inn starfsfólk og séð til þess að það sé að vinna eðlilega vinnutíma og líði almennt vel.
Hverjar eru áherslur Pírata fyrir þessar kosningar?
Við viljum ekki þennan iðnað í Helguvík. Það þarf að ganga úr skugga um að sorpbrennslan fari af stað með eðlilegum hætti. Það þyrfti að fá aðila til þess að gera úttekt og ná mengunartölunum vel niður. Heilbrigðisþjónustan skiptir gríðarlega miklu máli og við viljum taka yfir rekstur HSS. Óhagnaðardrifin leigufélög, við viljum koma þeim af stað og gera það með því að breyta því hvernig lóðum er útdeilt hérna. Nú eru þær boðnar upp og þá er bara dýrasta húsnæðið byggt. Við þurfum að búa til íviljanir fyrir fólk sem langar að byggja smátt og byggja ódýrt til þess að auka fjölbreytnina á húsnæðinu sem er hérna, þannig við séum ekki bara að byggja stórar, dýrar íbúðir heldur líka litlar. Ég er mjög hrifinn af smáhýsum, þau vantar algjörlega í dag.
Þið hafið ekki leynt ykkar skoðunum varðandi Helguvík.
Nei, það þarf að taka Helguvík algjörlega til endurskoðunar í ljósi þess að olíubirgðarstöðin er til dæmis þar. Þessi iðnaður þarna er skipulagsmistök og fullt af gagnaverum hafa sýnt þessu svæði áhuga. Við erum með gríðarlega öfluga þörungaverksmiðju sem er að velta fleiri milljörðum. Við höfum ekkert með þennan iðnað að gera, þetta er bara barn síns tíma og við eigum þá frekar að vera í þörungarækt og hugsanlega útflutningi á fisk til dæmis, uppskipun af togurunum, það væri hægt að flytja beint út með flugvélunum. Það er svona iðnaður sem ég vil sjá á þessu svæði.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Ég sé fyrir mér að við verðum með öflugt óhagnaðardrifið leigufélag, þar sem fólk getur leigt ódýrt og til langs tíma, ekki bara eins árs heldur tíu ára og jafnvel lengra. Ég sé fyrir mér öfluga skóla hérna á svæðinu sem kenna forritun og tæknimenntun og að við séum að mennta fólk sem hefur kunnáttuna sem þarf til að takast á við framtíðina. Ég sé fyrir mér mörg tæknifyrirtæki, þörungarækt, fiskeldi, mörg gagnaver og mikil tæknileg uppbygging á svæðinu. Ég sé fyrir mér að Reykjanesbær verði miðstöð hátækniiðnaðar á Íslandi í framtíðinni því við erum með flugvöllinn og hér myndu sækjast þá að evrópsk og amerísk fyrirtæki sem myndu vilja vera miðsvæðis.