X18 - Margrét Sanders: Samstaða og grænn bær
Hver eru stærstu málin í Reykjanesbæ fyrir þessar kosningar?
Stærstu málin eru auðvitað þau sem snúa að ríkinu og að okkar mati samstaða og að vinna saman Reykjanesbæingar. Heilsugæslan, fjölbrautaskólinn og öll þau atriði sem snúa að ríkinu. Það er risa mál og við þurfum að standa saman þvert á flokka sem sveitarfélag og standa með bænum okkar. Í öðru lagi er það þessi gríðarlega fjölgun. Við erum í vandræði með húsnæði núna, húsnæðisverð hefur rokið upp og við þurfum að hugsa til þess hvar við ætlum að setja niður þetta nýja vinnuafl sem er að koma í sveitarfélagið og það þarf að passa upp á það að dreifa því. Síðan eru það auðvitað innviðirnir. Íþróttafélögin geta sum hver ekki tekið á móti fleiri iðkendum því aðstaðan er algjörlega sprungin og það er þá okkar áskorun að taka boltann og vinna með þeim að framtíðaruppbyggingu.
Hvað leggið þið Sjálfstæðismenn mesta áherslu á í ykkar málum fyrir þessar kosningar?
Allt þetta sem ég nefndi á undan og svo erum við líka að tala um fjölbreytt atvinnulíf. Við vorum með herinn hér og það var mjög einhæft atvinnulíf og við erum að horfa upp á það í ferðaþjónustunni, þannig við segjum fjölbreytt atvinnulíf. Síðan er það líðan barna og unglinga og það er hræðilegt að hugsa til þess að kvíði, depurð og þunglyndi séu að aukast. Þar þurfum við að horfa á forvarnir í gegnum skóla, íþróttafélög og tómstundastarf og vinna með fólkinu þar. Sem foreldrar vantar okkur virkilega stuðning, hvert eigi að leita og hver eigi að aðstoða og það vantar geðheilbrigðisfólk og fagfólk á þessu sviði.
Hvað viltu segja um starfsemina í Helguvík?
Ég segi það sama við þig og ég sagði við þig 2016, 2017, þessi ömurlegi farsi hjá United Silicon á sér ekki hliðstæðu. Við verðum að standa með bæjarbúum, þetta er ekki í boði. Þetta á bara að vera í lagi. Hvort sem það er United Silcion eða einhver annar iðnaður þá eigum við að spyrja bæjarbúana hvað þeir vilja. Hvernig sveitarfélagi vilja bæjarbúar búa í? Við Reykjanesbæingar verðum að vinna saman að því og hugsa hvernig fjölbreytileika við viljum í atvinnulífinu.
Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Ég er svo ánægð með Reykjanesbæ. Mér finnst þetta bara algjörlega frábært. Ég er búin að vinna í Reykjavík í tuttugu ár, en alltaf bý ég hér. Við þurfum bara að horfa til tækifæranna sem eru hérna. Eitt af því sem við höfum verið að horfa til er grænn Reykjanesbæ, vera bara svolítið í forystu, til dæmis að rafbílavæðast, flokka sorp og vinna að því að gera þetta algjörlega frábært sveitarfélag. Við erum íþróttabær, eigum að vera tónlistarbær og við erum það og eigum að sýna það út á við líka. Við eigum að sýna allt þetta öfluga sem við höfum. Það eru fá sveitarfélög með þennan mannauð og þessi tækifæri og við þurfum að vera þar og tala um hvað bærinn okkar er algjörlega frábær.