Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 06:00

X18 - Jóhann F. Friðriksson: Heilbrigðismál og innviðir

Hver eru stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ fyrir þessar kosningar?
Mér heyrist svona á umræðunni að það gætu verið heilbrigðismálin. Heilsugæslan hefur auðvitað verið átakamál í langa tíma, menn ekki sáttir með þjónustu og við höfum lagt fram ákveðin plön í því. Svo auðvitað innviðauppbygging. Það er kannski klisjukennt orð en við þurfum á því að halda, sökum fjölgunar og við þurfum að geta sett í gírinn til framtíðar.


Hver eru helstu málin sem ykkar flokkur er að leggja fram núna?
Við erum að setja fram ákveðið plan varðandi heilsugæsluna. Við viljum leita til ríkisins varðandi það að koma að rekstri hennar. Síðan eru það kennararnir, innviði skólanna. Við erum svo heppin að eiga frábæra kennara, bæði í grunn- og leikskólum, en við þurfum að tryggja það að við höldum þeim. Það verður kennaraskortur, við sjáum fram á það, og við ætlum að reyna að tryggja það að svo verði ekki.


Hver er ykkar skoðun á starfsemi í Helguvík?
United Silicon klúðrið er auðvitað eitthvað sem við Íslendingar höfum aldrei horft fram á, þannig það er sérstakt að því leytinu til. Við hefðum átt að leyfa íbúum að koma að málinu í upphafi og það er eitthvað sem við ætlum að reyna að tryggja, að við fáum tækifæri til þess.


Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Ég held að við séum í þeirri einstöku stöðu að hér verði mikil uppbygging, hún hefur verið nú þegar en á eftir að verða enn meiri. Með þessari miklu uppbyggingu þurfum við auðvitað að tryggja það að innviðirnir séu í lagi. Ég held við höfum mjög marga góða þætti hérna með okkur, þess vegna vill flytja hingað til okkar. Þannig það eru bjartir tímar framundan en við megum ekki sofna á verðinum.