Þriðjudagur 22. maí 2018 kl. 06:00

X18 - Dagný Steinsdóttir: Sóðastarfsemi í Helguvík

Hver eru stærstu kosningamálin í Reykjanesbæ fyrir þessar kosningar?
Ég held það séu málefni aldraðra, menntamálin og heilbrigðismálin, svona helst.


Hver eru ykkar helstu áherslur fyrir þessar kosningar?

Við viljum innleiða Barnasáttmála UNESCO, líkt og Akureyrarbær hefur gert. Við viljum að það séu gjaldfrjálsar skólamáltíðir í skólunum. Stytting vinnuviku frá 40 til 35, sem ég held að við í Reykjanesbæ getum byrjað í á sveitarstjórnarstiginu. Það er góð reynsla á því, Reykjavíkurborg er búin að vera að gera þetta í samræmi við BSRB og það hefur sýnt sig að fólk er að afkasta jafn miklu og er ánægðara í starfi. Við viljum að félagsþjónusta sveitarfélagsins samræmi sína krafta við heimahjúkrun HSS. Ég held það verði miklu betri þjónusta við aldraða og að fólk verði betra í sínu starfi. Þarna er mikill kostnaður fyrir heilbrigðisstofnunina að reyna sinna fólkinu og svo eru allir að vinna í sitthvoru horni og enginn veit hvað snýr upp og hvað snýr niður. Ég held að það myndi gera rosalega mikið fyrir eldri borgara.


Hver er ykkar skoðun á starfseminni í Helguvík?
Þetta er náttúrulega bara sóðastarfsemi og á bara ekkert heima svona nálægt bæjarfélaginu. Þetta verður að fara. Þetta mun aldrei vera til friðs og það verður alltaf mengun af þessu, alveg sama hvað verður gert þannig við þurfum að fara í það að breyta deiliskipulaginu og stöðva þetta. Við höfum alveg nóg fyrir okkur í því að rifta samningum við Thorsil vegna vanefnda og að þeir hafi ekki gert neitt á þessari lóð í öll þessi ár. Ég sæi fyrir mér að við myndum halda áfram að gera þetta að fallegu útivistarsvæði, eins og við vorum byrjuð á á Berginu og við myndum tengja þetta meira við höfnina. Það myndi kannski kosta tvö, þrjú hundruð milljónir að laga höfnina svo skemmtiferðaskip gætu komið þarna inn þar sem fólk gæti bara labbað að Hafnargötunni. Seyðisfjarðarbær er að fá 62 skip núna í sumar og ég sæi fyrir mér að þetta gæti gert þetta að blómlegum bæ og lagað skuldastöðu hafnarinnar.


Hvernig sérðu Reykjanesbæ fyrir þér sem fyrirmyndar sveitarfélag í framtíðinni?
Við þurfum að taka afgerandi forystu í umhverfismálum. Hlýnun jarðar, skortur á vatni, ég held það sé ekkert svo fáránleg hugmynd að fara að rækta grænmeti í Helguvík. Við þurfum að taka afgerandi forystu í einnota umbúðum, jafnvel að banna plastpoka innan við einhvers tíma. Við erum að verða eitt stærsta sveitarfélagið á landinu þannig við þurfum að taka meiri afgerandi forystu og gera hluti sem hinir þora ekki að gera.