Vortónleikar Vox Felix í kvöld
- sjáið hressandi myndskeið með fréttinni
Vortónleikar Vox Felix verða haldnir í kvöld, þriðjudagskvöldið 26. maí, í Ytri-Njarðvíkurkirkju. Tónleikarnir hefjast kl. 20. Vox Felix er ungmennakór og er samstarfsverkefni sem kirkjurnar á Suðurnesjum standa að.
Sjónvarp Víkurfrétta kíkti við á æfingu hjá kórnum í vikunni sem leið. Brot úr lagi má sjá í spilaranum hér að neðan.
Stúlkur hafa verið nær einráðar í kórnum en nú hafa þær fengið stráka til liðs við sig. Á tónleikunum í Ytri-Njarðvíkurkirkju á þriðjudaginn verður fjölbreytt söngdagskrá, ný lög í bland við gömul, allt frá Hozier til Vilhjálms Vilhjálmssonar.
Stjórnandi og undirleikari Vox Felix er Arnór Vilbergsson. Aðgangseyrir á tónleikana er 1000 krónur en vakin er athygli á því að enginn posi verður á staðnum þannig að tónleikagestir eru hvattir til að taka með sér pening.