Vogakrakkar nýta sjóinn sem útikennslustofu
Stóru-Vogaskóli er staðsettur við mikla fjöru í lygnri vík, Vogavík. Þar er því einstakt tækifæri til að efla útikennslu og náttúruupplifun en á undanförnum árum hefur útikennsla við skólann verið aukin sem viðbót við fjölbreytta kennsluhætti. Einn liður í útikennslu við Stóru-Vogaskóla er valfag í kajakróðri. Í kajaktímum er öryggið í fyrirrúmi og fara því alltaf tveir kennarar í róður með hverjum hópi. Kajaktímarnir eru valfög á unglingastigi og hafa notið vinsælda, enda kærkomin tilbreyting frá inniveru og bókalestri. „Nemendur hafa tekið því vel að geta valið sér skemmtilegt fag úti í náttúrunni. Fagið er hluti af þeirri auknu áherslu sem víða er verið að leggja á útikennslu. Stóru-Vogaskóli er staðsettur við þessa frábæru fjöru og Stapann og hefur fallega umgjörð frá náttúrunnar hendi,“ segir Hilmar E. Sveinbjörnsson, kennari við Stóru-Vogaskóla.
Sjáið mjög skemmtilegt innslag með krökkunum í Vogum í Sjónvarpi Víkurfrétta.