Vinsæll hreystivöllur í Reykjanesbæ
Eins og við höfum áður greint frá var hreystivöllur opnaður á gamla malarvellinum í Keflavík á dögunum. Hreystivöllurinn er fyrsti hlutinn af fjölbreyttum leikjagarði sem m.a. byggir á tillögum grunnskólabarna á íbúafundum með bæjarstjóra frá síðasta hausti.
Hreystivöllurinn uppfyllir allar öryggiskröfur og er 30m langur og 12m breiður. Þar verður m.a. apastigi, upphýfingar, dýfur, rör og hreystigreip. Einnigmá nefna kaðalturn og armbeygjupall.
Mikill áhugi er fyrir hreystivellinum í Reykjanesbæ en skólarnir í bænum hafa sent lið til þátttöku í Skólahreysti og nýlega varð Heiðarskóli í öðru sæti keppninnar en lið Heiðarskóla fór með sigur af hólmi í Skólahreysti á síðasta ári.
Meðfylgjandi myndskeið var tekið við opnun hreystivallarins á dögunum en þá var skellt upp hreystikeppni til að sýna hvernig nota á hreystibrautina.
Myndband: Hilmar Bragi Bárðarson