Vill gera tónlistina að ævistarfi
- Már Gunnarsson varð í þriðja sæti í alþjóðlegri söngvakeppni
„Ég er á fullu í sundinu en á þessari önn minnkaði ég skólann aðeins hjá mér til að koma tónlistinni og sundinu betur fyrir. Núna er ég að undirbúa plötu sem verður tekin upp í Búlgaríu undir handleiðslu eins besta pródúser þar í landi og ég er spenntur fyrir þessu verkefni.“
Söngvarinn og lagahöfundurinn Már Gunnarsson fór til Póllands fyrr í mánuðinum til að taka þátt í alþjóðlegri söngvakeppni á vegum Lions fyrir blinda eða sjónskerta. Keppnin ber heitið „Hljómar frá hjartanu“ og var hún fyrst haldin árið 2013 í Kraká. Markmiðið með keppninni er að auka skilning á vanda blindra eða sjónskertra, í samræmi við markmið Lions um sjónvernd. Alls voru söngvarar frá 13 löndum í keppninni og 26 tónlistaratriði tóku þátt. Lokakeppnin sjálf fór síðan fram í „Slowacki Theatre“ sem er eitt fegursta tónlistarhús Evrópu. Már er ekki aðeins fær á söngsviðinu heldur æfir hann sund af kappi og er á leiðinni á HM í sundi í Mexíkó í lok mánaðarins og stefnir á Ólympíuleikana í Tókýó 2020.
Hvað kom til að þú fórst í þessa söngvakeppni í Póllandi?
„Það er svolítið skemmtileg saga, ég var að vinna með Gísla Helgasyni, sem er einn besti blokkflautuleikari á landinu, en hann var að spila inn blokkflautu fyrir mig og þá benti hann mér á þessa keppni sem var í Kraká. Hann sagði mér að sækja um og ég gerði það. Undirbúningurinn var töluverður en ég þurfti að taka lagið upp og senda það á geisladisk. Eftir það tók dómnefnd við laginu og ég komst inn. Í heildina voru 26 keppendur sem komust inn á öllum aldri, frá 16 til 55 ára en flestir voru yfir þrítugt. Þetta var alveg hrikalaga skemmtilegt og keppnin var haldin í einu flottasta leikhúsi sem ég hef komið í, Slovaki Theatre. Ég samdi lagið sérstaklega og sendi það á vin minn sem býr í Lúxemborg sem heitir Tómas Eyjólfsson og hann samdi textann fyrir mig, lagið heitir „In the Stars“.“
Már ásamt foreldrum sínum, Gunnari og Línu Rut og bróðurnum Nóa ásamt Lionsfólkinu Guðrúnu Ingvadóttur og Jóni Bjarna Thorsteinsyni.
Hvernig gekk þér?
„Mér gekk vel, ég tók þriðja sætið og var mjög sáttur með það. Markmið mitt var að komast í úrslitin þar sem helmingurinn var skorinn niður strax og aðeins þrettán komust í aðalkeppnina, þá var þetta nokkuð góður árangur. Þetta var ótrúlega skemmtilegt líka því ég var með frábært átján manna band með mér og hljómsveitarstjórinn var ótrúlega indæll og að spila í þessu leikhúsi var algjört ævintýri.“
Hvernig fóru æfingar fram?
„Hljómsveitin var búin að æfa lagið áður en ég kom út en ég kunni lagið alveg. Svo fór ég á æfingu með hljómsveitinni sama dag og keppnin var klukkan níu um morguninn þannig ég æfði ekki mikið með henni fyrir keppnina sjálfa.“
Þegar þú semur lög, hvaða ferli fer í gang hjá þér?
„Ég sest niður við píanóið og bý til einhverja laglínu eða beinagrind, svo þegar ég er komin með hana þá leik ég mér með hljóma og þegar lagið er klárt sendi ég það á Tomma í Lúxemborg og hann semur texta þegar andinn kemur yfir hann.“
Már á sviðinu í Póllandi.
Sérðu fyrir þér að taka þátt í söngvakeppnum hér á Íslandi?
„Já, ég væri alveg til í það og reyni á hverju ári að komast í Eurovision.“
Sérðu þig fyrir þér í tónlistinni í framtíðinni?
„Ég vil helst gera þetta að mínu ævistarfi og mig langar til þess að fara í háskóla í Amsterdam, þar er einn besti tónlistarskóli í Evrópu. Ég klára Fjölbrautaskóla Suðurnesja jólin 2018 og það er bara spurning hvenær ég myndi leggja upp í hitt.“
Ertu að einbeita þér að einhverju öðru en tónlist í dag?
„Já, ég er á fullu í sundinu en á þessari önn minnkaði ég skólann aðeins hjá mér til að koma tónlistinni og sundinu betur fyrir. Núna er ég að undirbúa plötu sem verður tekin upp í Búlgaríu undir handleiðslu eins besta pródúser þar á landi og ég er spenntur fyrir því verkefni. Platan á að heita „Söngur fuglsins“ og lögin á henni eru öll eftir mig og flestir textar eru eftir Tomma í Lúxemborg. Ég mun syngja lög þarna, systir mín, Villi naglbítur og vonandi einhverjir fleiri. Tónlistin sem ég spila og syng eru poppdægurlög og ég vonast til þess að vera með útgáfutónleika eftir að ég er búinn að gefa plötuna út.“
„Slowacki Theatre“ er eitt fegursta tónlistarhús í Evrópu.
Þú ert öflugur í sundi, ertu að æfa stíft?
„Já, núna er ég að undirbúa mig fyrir Mexíkó en ég fer þangað í lok nóvember að keppa í HM í sundi. Ég æfi um tólf tíma á viku í lauginni og svo bætist styrktarþjálfun við. Ég byrjaði í 8. bekk að synda og sundið heldur manni vel við líkamlega og andlega. Ég er að byggja upp heilsu til framtíðar en aðalmarkmiðið er að komast á Ólympíuleikana í Tokýó 2020.“
Hvernig gengur þér að sinna þínu daglega lífi?
„Ef maður hefur gaman af því sem maður er að gera þá er ekkert erfitt, maður gerir það sem maður gerir og ef það þarf að hliðra einhverju til þá vinnur maður með því. Tækniheimurinn auðveldar mér lífið töluvert og hann er orðinn mjög aðgengilegur. Apple er mjög framarlega þegar kemur að málefnum blindra, talgervlar hjá þeim eru fljótir að svara en eini gallinn að mínu mati er að þeir eru ekki með íslensku þannig að þegar ég les skilaboð með hjálp gervilsins þá talar hann mjög bjagaða ensku því hann les íslenskuna á ensku.“
Már með glæsilegan verðlaunagrip fyrir 3. sætið í söngvakeppninni.