Fimmtudagur 6. maí 2010 kl. 11:34

Viljum stuðla að auknu lýðræði í bæjarstjórn

Talverðar breytingar verða á skipan efstu manna á lista Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ. Eysteinn Jónsson, sem sat í bæjarstjórn fyrir Framsókn í kosningabandalagi A-listans, dró sig í hlé vegna búferlaflutninga í vetur og varamaður hans, Guðný Kristjánsdóttir, ákvað að skipta um flokk og býður sig nú fram fyrir Samfylkingu.


„Það gekk ótrúlega vel að koma saman lista. Hann er mjög vel mannaður en í fyrstu átta sætunum eru fjórir karlar og fjórar konur. Hann er skipaður ungu fólki með rætur í samfélaginu hérna, fólki sem ætlar sér að taka þátt í stjórnun bæjarins og halda áfram að búa og lifa hér í bæjarfélaginu,“ svarar Kristinn Jakobsson, sem skipar fyrsta sætið á lista Framsóknar í Reykjanesbæ.


-Hvað ætlið þið að leggja upp með í kosningabaráttunni sem framundan er?

„Staðan er gríðarlega alvarleg í þjóðfélaginu. Við tökum henni sem áskorun og ætlum að reyna að bæta samfélagið sem við búum í. Við viljum stuðla að auknu lýðræði í bæjarstjórn. Það vantar. Það er ekki heilbrigt að einn flokkur fái að ráða eins lengi og meirihlutinn hefur fengið að ráða fram að þessu eða í átta ár. Við viljum hafa áhrif á gang mála,“ segir Kristinn, sem telur fjárhagsstöðu bæjarins grafalvarlega.


„Þú verður ekkert ríkari þó þú seljir eignirnar. Við skuldum um 400% af árlegum tekjum og þessu verður að breyta með öllum ráðum. Vonandi komast þessi verkefni í Helguvík og Ásbrú í gang. Staðan myndi batna við það en hún er mjög alvarleg og að mínu áliti vegna meirihlutans sem er einráður og gerir það sem honum sýnist án umræðu.


Við viljum leggja inn í stjórn bæjarins það sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir í áraraðir, þ.e. rökhyggja og gagnrýnin hugsun.“


-Hvað er gagnrýnin hugsun?

„Gagnrýnin hugsun er að samþykkja ekki neina skoðun öðruvísi en að hafa velt henni fyrir sér. Skýrslan með stóra S-inu gefur klárlega til kynna að gagnrýnin hugsun og umræðan í þjóðfélaginu hefur engin verið. Henni hefur verið stýrt af allt of fáum sem hafa ráðið allt of miklu.“


-Hvernig finnst þér stemmningin í kringum kosningabaráttuna núna? Hún virðist vera harla daufleg miðað við áður í aðdraganda kosninga.
„Stemmningin í okkar hópi er mjög góð. Við erum á fullu í málefnavinnunni og höfum fengið fjölda fólks á fundi með okkur, sem hefur tekið virkan þátt í þessari mótun. Úti í þjóðfélaginu virðast stjórnmál lítið vera til umræðu. Skýrslan með stóra S-inu er það sem fólk er upptekið af núna. Við reynum jú að vekja máls á því sem við stöndum fyrir og fólk hefur tekið okkur vel.“


- Hversu mörgun mönnum ætlið þið að koma inn í bæjarstjórn?

„Við vorum nú gantast með það í hópnum að ef við fáum ekki hreinan meirihluta þá sættum við okkur við hvað sem er. En við stefnum alla vega á tvo, helst þrjá.“