Viðtal: Siggi sigurvegari!
Sigurður Ingimundarson er einn sigursælasti þjálfari landsins. Er hann hættur?
Sigurður Ingimundar er sigurvegari. Að baki liggja 39 titlar í körfubolta karla og kvenna með Keflavík. Félagið hefur mikla þýðingu fyrir þennan beinskeytta þjálfara sem nú hefur verið í langþráðu fríi frá körfuboltanum. Það kom þó til vegna veikinda sem Sigurður segir ekki hrjá hann lengur. Hann gerir ekki ráð fyrir því að ferlinum sé lokið og stefnir á að snúa ferskur á hliðarlínuna innan skamms enda segist hann eiga ýmsu ólokið.
Fyrrum liðsfélagar og leikmenn sem blaðamaður ræddi við segja að Siggi sé frekar lokuð týpa en um leið mjög kokhraustur og nett hrokafullur. Siggi endurspeglar þennan Keflavíkurhroka sem hefur loðað við liðin síðan hann kom fram á sjónarsviðið sem þjálfari. Sigurhefð og óbilandi sjálfstraust fylgja manninum og það smitar hann frá sér í leikmenn. „Hann hefur búið til töffara og karaktera og gefið mörgum mikla trúa á sjálfum sér,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur, sem hefur spilað fyrir Sigurð meira og minna frá unglingsárum. Veikindi hafa aðeins verið að hrjá Sigurð en hann segist þó hvergi nærri vera hættur að þjálfa. Hann er í raun að fá sitt lengsta frí frá því að hann byrjaði að þjálfa árið 1991. „Ég er góður. Það kom upp smá heilsuvandamál í haust og ég ákvað að vera ekkert að þjálfa í vetur. Ég ákvað að horfa á þetta öðruvísi enda langt síðan ég var ekkert að þjálfa. Það er ágætt að kúpla sig aðeins út og maður sér þetta öðruvísi. Það er ýmislegt sem ég hef lært í vetur sem ég get kannski nýtt mér seinna,“ segir þjálfarinn og kennarinn Sigurður. Margir hafa velt því fyrir sér hvort þjálfunarferlinum sé lokið hjá honum. „Ég hef svo sem ekki verið að spá í það en mér finnst ólíklegt að ég sé hættur. Ég á eftir að gera ýmislegt í þessu ennþá sem ég hef ekki náð að klára.“ Það er þó ekki margt sem Sigurður á eftir að afreka enda hefur hann unnið alla titla sem í boði eru oftar en einu sinni.
Eðlilegt að fara í þjálfun og safna titlum
Sjálfur var Sigurður frábær leikmaður. Hann byrjaði ferilinn fyrir utan teiginn en færði sig í ærslaganginn í teignum þegar leið á ferilinn. Hann byrjaði frekar seint að æfa eða 15 ára gamall. Áður hafði hann verið í fótbolta en körfuboltinn lá vel fyrir honum. „Það var strax skemmtilegt að æfa. Ég var líka heppinn að enda í góðu liði með góðum félögum, það hefur helling að segja.“ Körfuboltinn var að ryðja sér til rúms í Keflavík á þeim árum og Sigurður tilheyrði einmitt liðinu sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki hjá félaginu árið 1989. „Ég reyndi að vera liðsmaður og gera allt til þess að liðið mitt myndi vinna. Ég hafði gaman aðeins að þjösnast og taka á mönnum,“ segir Sigurður þegar hann er beðinn um að lýsa sér sem leikmanni. „Ég hef alltaf verið tapsár í öllu. Mér finnst mjög leiðinlegt að tapa og reyni að gera allt til þess að tapa ekki.“
Sigurður var leiðtogi á vellinum og var fyrirliði lengst af á sínum ferli. „Ég tók það að mér að vera leiðtogi, fannst ég bara þurfa að gera það. Ég held að maður sé bara þannig karakter og þá gerir maður það bara.“ Þjálfun var honum ofarlega í huga þegar hann var enn leikmaður. „Ég sá fljótlega hvernig ég vildi spila körfubolta og fannst ég þurfa að skipta mér af þessu öllu. Á endanum fannst mér bara eðlilegt að ég myndi fara að þjálfa og að hlutirnir yrðu gerðir eins og ég vildi hafa þá. Mér fannst það bara ofboðslega eðlilegt að það ætti að ganga vel. Titlar og velgegni var bara eðlilegt og annað væri bara rugl. Það hefur þó ekki gengið alveg síðustu árin. Það er ekki alveg hægt að vinna alltaf, sama hvað lið um ræðir.“
Aðrir pirraðir yfir velgengninni
Einhverjir sérfræðingar hafa haft á orði að Sigurður hafi landað mörgum titlum ekki endilega á hæfni sinni heldur gríðarlega sterkum leikmönnum. Hefur hann heyrt af slíkri gagnrýni? „Já, já. Á tímabili unnum við mjög mikið alls staðar og menn voru pirraðir. Þetta er dálítið eins og KR er að gera núna. Þeir vinna bara af því að þeir eru með svo góða leikmenn, eðlilega því þannig vinnur maður. Það býr þó meira að baki og þeir sem þekkja til, ég held að þeir viti það nú alveg.“
Hraðlestin eins og Keflavíkurliðið á tíunda áratugnum var kallað, var sigursælt og fyrir vikið ekki vinsæl meðal stuðningsmanna annarra liða. „Við vorum ekkert sérstaklega að draga úr því. Við nýttum okkur þetta til þess að „peppa“ okkur sjálfa upp. Þetta kryddaði hlutina og okkur fannst þetta skemmtilegt.“ Blaðamaður spyr hvort að Sigurður sé hrokafullur þegar kemur að körfubolta og hvort sá hroki smitist til leikmanna. „Ég viðurkenni það ekki að ég sé hrokafullur, en það má vel vera. Ég vil þó að ég og allir í kringum mig séum bestir í öllum heiminum og eigum að vinna alla þegar við erum að keppa. Þannig hugsun vil ég að menn séu með þegar þeir eru í keppnisíþróttum. Annars ættir þú að snúa þér að öðru.“
„Ég tel það vera einu leiðina til þess að lið verði góð að allir keppi að sama marki og geri það sem fyrir er lagt. Það eru engar undantekningar fyrir einn né neinn. Það getur bara einn verið að ráða.“ Sigurður segir að það sé lykilatriði að halda uppi ákveðnum aga og að leikmenn sætti sig við það. Það þurfi þó ekki endilega að kalla fram með einhverjum látum. „Ég er voðalega hrifinn af því að körfubolti sé spilaður af liði. Allir séu að leggja sitt af mörkum og að þetta sé skemmtilegt. Að leikmenn séu að gera allt til þess að sitt lið vinni og ekki að hugsa um einhverja tölfræði. Leikurinn sé einfaldur og grunnatriðin vel gerð, þá er ég sáttur.“
Aldrei saddur og hefði viljað fleiri titla
Hafa allir þessir titlar einhverja þýðingu fyrir þig. Spáir þú eitthvað í þessu?
„Nei ég verð að viðurkenna að ég spái afar lítið í þessu. Að sjálfsögðu er ég ánægður með þetta og þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í starfi með liðum sem hafa verið góð. En ef ég er að þjálfa þá vil ég bara vinna aftur, skiptir engu hvort ég hafi unnið áður eða ekki. Mér finnst það gaman.“ Þannig spáir Sigurður jafnvel meira í þeim bikurum sem runnu honum úr greipum.
„Þeir eru nokkrir titlarnir sem mér finnst leiðinlegt að hafa ekki náð. Nokkrir af þeim sitja dálítið í manni. Maður hefði viljað hafa fleiri, maður er aldrei sáttur,“ segir Sigurður og hlær við. Hann vil ekki gefa sumum titlum meiri gaum en öðrum. Sá nýjasti er alltaf sá sætasti að hans mati. „Við höfum þó unnið titla í bæði karla- og kvennaboltanum þar sem við höfum ekki verið með besta liðið fyrirfram, langt í frá. Mér finnst það skemmtilegt. Þetta er alltaf gaman á meðan á þessu stendur.“ Sem leikmaður þá var fyrsti titillinn hvað sætastur. „Við vorum komnir með leiðinda silfur viðurnefni á okkur. Unnum aldrei þangað til okkur tókst þetta. Þegar við náðum þeim fyrsta þá komu ansi margir í kjölfarið. Það var töluverður léttir fyrir okkur að ná þeim fyrsta.“
Þeir gerast vart harðari Keflvíkingarnir en Sigurður en klúbburinn á sérstakan stað í hjarta hans. „Keflavík hefur hellings þýðingu fyrir mig. Ég er auðvitað búinn að alast upp hjá þessu félagi í ansi mörg ár. Það sem situr eftir eru þessi tengsl sem þú færð út úr íþróttinni. Kynni af fólki í gegnum tíðina, það er kannski dýrmætast í þessu.“ Frábærir leikmenn hafa leikið undir stjórn Sigga og margir hverjir eftirminnilegir. „Damon var frábær leikmaður og sömuleiðis persóna. „Við Magnús (Þór Gunnarsson) höfum farið í gegnum nokkur lið saman og hann hefur spilað lengi hjá mér. Eins Gunnar Einarsson og margir fleiri. Við búum vel hérna í Keflavík að allir þessir leikmenn eru hérna ennþá og við hittumst reglulega stór hópur.“
Ósáttur í Svíþjóð - sér ekki eftir Njarðvík
Fáir bjuggust við því að Sigurður myndi þjálfa annars staðar en í Keflavík. Sú staða kom upp árið 2009 eftir stutta dvöl hjá Solna í Svíþjóð, þar sem Sigurður var ekki sáttur við aðstæður, að hann tók við stjórnartaumunum hjá Njarðvík. Hvernig kom það til?
„Þá hafði ég verið að þjálfa í Svíþjóð. Mér leist ekkert sérstaklega vel á blikuna þar og kom heim. Njarðvík hafði samband við mig og ég sló til, þetta var nú ekki flóknara. Eðlilega þurfti ég að hugsa mig um en þegar maður er þjálfari þá getur maður ekki alltaf verið á sama stað. Það eru ekki margir eins heppnir og ég og hafa fengið að þjálfa sama lið svona lengi eins og ég í Keflavík. Það er mjög sjaldgæft. Þannig að ég sló til og sé alls ekki eftir því.“
„Ég fékk bara fínar viðtökur frá Keflvíkingum. Þeir sem voru með einhverjar hugmyndir höfðu vit á að tala ekki við mig. Þegar maður telur sig vera fagmann í einhverju þá gerir maður bara eins vel og maður getur og annað er ekki í myndinni. Þegar ég var að þjálfa Njarðvík þá gerði ég bara eins vel og ég gat.“ Ekkert tilfinningabull? „Nei nei, það þýðir ekkert í þessu. Það kemur kannski seinna.“
Þegar þú munt líta yfir ferilinn að honum loknum, hvað mun standa eftir?
„Ef ég hef lagt mig allan fram og reynt að bæta mig og alla í kringum mig, þá verð ég sáttur.“
Enginn er annars bróðir í leik
Valur, stóri bróðir Sigurðar, hafði snemma haslað sér völl sem einn besti leikmaður Íslands og síðar sem þjálfari. Það þótti skemmtilegt að þeir bræður hafi endað hjá erkifjendunum í Reykjanesbæ. „Þegar við fluttum fyrst til Suðurnesja þá fluttum við til Njarðvíkur áður en við fluttum okkur yfir til Keflavíkur. Valur bróðir festist þar en ég var ekkert í körfunni fyrr en seinna meir og þá höfðum við búið í einhvern tíma í Keflavík, þá lá það beinast við,“ segir Sigurður sem kannast ekki við að það hafi verið sérstakur rígur milli þeirra bræðra en rígurinn milli liðanna var áþreifanlegur á þessum tíma. „Við höfðum bara gaman af því og það var ekkert verið að draga úr því heima fyrir. Við vorum ekkert að tala endilega mikið saman daginn fyrir og eftir svona leiki,“ en það kastaðist aldrei í kekki milli þeirra bræðra utan vallar en enginn er annars bróðir í leik eins og máltækið segir.
Siggi er liðtækur á golfvellinum. Hér er hann á fyrsta teig á Hólmsvelli í Leiru, hans heimavelli.