Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 3. október 2023 kl. 21:08

Viðtal: Ásgeir Trausti með tónleika í Hljómahöll

„Þetta var ákveðið svolítið „spontant“ fyrir nokkrum vikum,“ segir tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti en hann heldur tónleika í Hljómahöll föstudagskvöldið 6. október. Ásgeir hefur ekki spilað áður í Hljómahöllinni en hefur komið fram á Ljósanótt og á Keflavík Music Festival.

Einhvern tíma er allt fyrst segir einhvers staðar. „Ég hef ekki haldið heila tónleika áður aleinn, hef verið með innkomur hér og þar og tekið eitt til tvö lög en þetta er í fyrsta skipti sem ég held heila tónleika einn og óstuddur. Hugmyndin var að halda bara eina tónleika á tónleikastað í Reykjavík sem heitir Mengi en svo vatt hugmyndin bara upp á sig og nú eru tíu tónleikar bókaðir. Tónleikarnir í Hljómahöll verða þeir fimmtu og ég hlakka mikið til. Ég mun bæði flytja ný lög sem verða á næstu plötu og líka lög sem henta í svona flutningi, þ.e. annað hvort á gítar eða píanó. Þegar hugmyndin fæddist ætlaði ég bara að spila á kassagítar en þegar við byrjuðum að æfa komu fleiri pælingar, ég er með píanó og alls kyns effecta og næ að láta hljóðheim sem ég bý til á staðnum með pedala-lúppum, malla undir á meðan ég spila lögin. Þetta hefur komið vel út og ég hlakka mikið til að flytja tónlistina fyrir Suðurnesjafólk og aðra gesti,“ sagði Ásgeir Trausti.