Video: Tveggja ára bið á hundruðum nýrra starfa vegna viljaleysis heilbrigðisráðherra
Athafnamaðurinn Róbert Wessman er einn af þeim sem koma að hinu nýja félagi „Iceland healthcare“ sem hefur gert samning við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar um rekstur einkasjúkarhúss í húsnæði gamla hersjúkrahússins á Ásbrú. Hann var spurður hvers vegna ekki hafi tekist að ná fram samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann segir að leitað hafi verið eftir þjónustukaupum, starfsfólki og leigu á skurðstofum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en pólitískt viljaleysi tveggja síðustu heilbrigðisráðherra hafi komið í veg fyrir það og í raun tafið að hér yrðu til hundruð starfa tveimur árum fyrr. Ef samningar hefðu náðst hefði Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki þurft að fara í niðurskurð á þessu ári eins og reyndin er, segir hann í viðtalinu.
Róbert svarar því einnig hvort tenging hans við útrásina hafi átt þátt í því að framganga þessa nýja verkefnis hafi verið erfiðari en hann hafi átt von á. Róbert segir að umgjörð og geta sé til staðar til að sinna þessu nýja verkefni á Ásbrú og segist bjartsýnn á framhaldið og mörg ný störf eigi eftir að verða til.
Á neðri myndinni er Róbert að kynna verkefnið á kynningarfundi í Víkingaheimum í Reykjanesbæ í dag. VF-mynd/elg.