Video: Sigvaldi kom Emmu litlu til bjargar
– eftir harðan árekstur í Njarðvík
	Gæludýr koma stundum við sögu í umferðaróhöppum og þeim þarf að sinna eins og mannfólkinu. Mjög hraður árekstur varð nú áðan á mótum Njarðarbrautar og Hjallavegar. Þegar fólkinu sem lenti í árekstrinum hafði verið komið til hjálpar þurfti einnig að huga að ferfætlingi sem var í annarri bifreiðinni, dauðskelkaður eftir áreksturinn.
	
	Það kom í hlut Sigvalda Arnars Lárussonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum, að huga að hundinum, henni Emmu, sem var illilega brugðið eftir að hafa lent í hörðum árekstri með eiganda sínum.
	
	Sigvaldi fangaði Emmu og kom henni í öruggt skjól inni í lögreglubíl. Í millitíðinni vildi þó Guðmundur Sæmundsson lögreglumaður fá að klappa Emmu og hrósaði Sigvalda þar sem Emma væri í öruggum höndum.
	
	Myndskeið af Sigvalda að bjarga Emmu má sjá hér að neðan.

