Verðum að vera við því búin að hér gerist stærri atburðir
Ár er liðið frá því eldsumbrot hófust í Fagradalsfjalli við Grindavík en eldgos hófst í Geldingadölum að kvöldi föstudagsins 19. mars árið 2021. Eldgosið átti sér töluverðan aðdraganda í fordæmalausri jarðskjálftahrinu sem meðal annars hafði töluverð áhrif á daglegt líf í Grindavík og íbúar á öllu suðvesturhorni landsins fundu vel fyrir skjálftunum.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, flutti erindi um jarðhræringar í Fagradalsfjalli í menningarhúsinu Kvikunni í Grindavík í síðustu viku. Auk þess að fara yfir atburði síðustu missera spáði Magnús í komandi mánuði og ár en Reykjanesskaginn er vaknaður að nýju af um 800 ára blundi.
„Það hafa orðið til á fyrri hluta nútíma býsna stór hraun og dyngjur. Við getum ekki útilokað að það geti gerst, það er bara alls ekki hægt, en síðustu árþúsundir hefur það ekki verið að gerast, heldur meira af hraunum í líkingu við það sem gerðist í Fagradalsfjalli. Auðvitað verðum við að vera við því búin að hér gerist stærri atburðir,“ segir Magnús Tumi m.a. í viðtali við Víkurfréttir. Við byrjuðum á því að spyrja Magnús Tuma að því hvaða lærdóm megi draga af gosinu í Fagradalsfjalli.
Vitum betur við hverju má búast á skaganum
„Það er af ýmsum gerðum að við getum skilgreint að við höfum lært heilmikið. Út frá jarðfræðilegu sjónarmiði þá er þetta fyrsta gosið á Reykjanesskaganum á núverandi tímum. Aðstæður hér eru öðruvísi en á austurgosbeltinu eða norðurgosbeltinu, þannig að það er lærdómsríkt að sjá þetta. Ekki síst er það að við erum að sjá hvernig kviknar á Reykjanesskaganum og hvernig aðdragandi eldgosa er þar. Eitt af því sem virðist vera hér er að kvikan er að koma beint úr möttli jarðar og það er óvanalegt, því yfirleitt á hún einhverja viðdvöl í jarðskorpunni. Það er ekkert mikið um að vísindamenn hafi aðgang að því. Þetta gerist á úthafshryggjunum en þeir eru á kafi í sjó og erfitt að komast að þeim. Jarðefnafræðingar eru að finna út allskonar hluti. Svo er það þessi gliðnun sem varð og hvernig hún hegðaði sér. Þá vitum við betur við hverju má búast á skaganum.
Síðan er nútímatækni þannig að það er hægt að gera svo margt. Það var hægt að kortleggja þetta hraun mörgum sinnum og niðurstöðurnar birtar jafnharðan. Það þýddi að það var hægt að fylgjast mjög vel með þróuninni og í hvað stefndi.“
Skjálftahrina eiginlega fordæmalaus
Í aðdraganda að þessu gosi voru mikil átök og allir þessir skjálftar.
„Skjálftarnir voru miklir ef við berum þetta saman við gos eins og í Grímsvötnum, Heklu og þess vegna Kötlu eftir því sem við vitum, þá var þetta miklu lengri og meiri aðdragandi hvað skjálfta varðar, enda var þetta gliðnun, kvikan þurfti að brjóta sér leið. Það eru kraftar sem eru búnir að vera að toga og þeir toga alltaf fastar og fastar. Svo kemur að því að það brestur. Það fór að gerast þarna og kvikan kom að neðan. Þetta er samspil af því að kvikan er að brjótast upp og skorpan að rifna í sundur. Þessi skjálftahrina er eiginlega fordæmalaus. Ég held að enginn núlifandi Íslendingur hafi fundið eins mikið af skjálftum eins og við fundum hér fyrir ári síðan.“
Það var mikil skjálftahrina á þessum slóðum árið 2017. Eru tengsl á milli þessara atburða?
„Já, við hljótum að líta svo á að skjálftavirkni hefur farið vaxandi ef horft er til nokkurra ára. Hún hefur verið jafnt og þétt vaxandi og þegar við horfum á þessa atburði út frá þeim atburðum sem hafa orðið, þá er eðlilegt að líta svo á að þetta [jarðskjálftarnir 2017] hafi verið byrjunin á þessum kafla sem lauk svo með þessu gosi. Hverjir næstu kaflar verða á eftir að koma í ljós. Það virðist vera að það sé ekki alveg búið með landris á svæðinu. Það hefur hægt á þessu öllu að minnsta kosti. Við vitum ekki hvort við höfum séð endann á þessari atburðarás sem nú er í gangi eða hvort eitthvað meira gerist. Um jólin kom áköf hrina og þá kom nýtt innskot en það var greinilega ekki næg kvika eða nógu mikið til að hún næði upp til yfirborðs, svo það hætti. Kannski er það endirinn á umbrotunum, kannski kemur eitthvað meira, við verðum bara að sjá“.
Líkindi milli umbrota við Fagradalsfjall og Kröflu
Magnús Tumi segir að það séu líkindi með því sem sé að gerast í Fagradalsfjalli og Kröflueldum. Í Kröflu liggja plötumótin og sprungurnar nánast samsíða. Hér á Reykjanesskaganum er þetta öðruvísi og þar geta sprungurnar ekki orðið mjög langar. Það er stórt horn á milli plötumóta og svo rekstefnunnar. „Hvort að þetta verður eins eða svipað þá er alveg ljóst að á tíundu öld komu endurtekin gos í Brennisteinsfjallakerfinu og þá runnu hraunin sem nú eru Heiðmörkin. Þar voru nokkuð mörg gos en það voru sennilega nokkur ár á milli. Við vitum þetta ekki nákvæmlega. Það eru vissulega líkindi með þessu og Kröflueldum.“
Efnið sem kom upp í gosinu í Fagradalsfjalli er meira en það sem kom upp í stærsta og síðasta Kröflu-gosinu. Líkindin séu til staðar en hvert sé með sínum brag.
Eldgosið sem kom upp í Geldingadölum að kvöldi föstudagsins 19. mars á síðasta ári verður vísindagarður fyrir jarðvísindafólk næstu ár og áratugi. Vel var hægt að fylgjast með aðdraganda gossins með nýjustu tækni. Magnús Tumi segir að kollegar hans sem vinna að þessum rannsóknum séu framarlega í þeim fræðum á heimsmælikvarða. Kvikan sem kom upp var að gefa góðar upplýsingar um möttulinn hér undir og hvernig þetta spilar saman. Þá fengust miklar upplýsingar um hvernig hraun renna og upplýsingar um hvernig sprengivirkni hegðar sér í gíg. Magnús Tumi segir mismunandi hópa vera að skoða þetta allt saman.
Tilraunastofa náttúrunnar sem gefur Íslandi forskot
„Svona gos eru tilraunastofa náttúrunnar og það er það sem gefur Íslandi töluvert forskot á þessu sviði, að við höfum þessa atburði. Það fer saman að því betur sem við skiljum atburðinn þeim mun betur getum við tekist á við hann. Líka að þetta eru spennandi viðfangsefni fyrir vísindamenn.“
Í fyrirspurnum eftir erindi Magnúsar Tuma í Kvikunni kom Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, með þá spurningu hvort eldgos geti læðst aftan að fólki og að skyndilega gæti farið að gjósa án fyrirboða.
Gýs ekki án fyrirboða
„Það er mjög ósennilegt að það geti gerst og langsótt vegna þess að kvikan þarf að koma djúpt að. Hún þarf að brjóta sér leið eða það þarf að rifna í sundur til að hún komist upp. Það eru allar líkur á því að það séu miklir forboðar eins og við höfum séð í tengslum við þessa atburði. Við getum sagt að innskotin og jarðskjálftavirknin sem var hér og byrjaði rúmu ári fyrir gosið, var forboði um að kvika væri farin að hugsa sér til hreyfings. Svo sáum við líka á atburðarásinni sem varð fyrir jól að þá reyndi kvikan að komast upp en náði ekki, en það leyndi sér ekki. Þess vegna er mjög langsótt að sjá fyrir sér að hér komi gos upp af óvörum og engan gruni að það sé að fara að gerast. Það er bara útilokað.“
Er líklegast að ef eitthvað gerist aftur fljótlega að það verði á sömu eða svipuðum slóðum?
„Ef Fagradalsfjallskerfið vill hreyfa sig eitthvað eða gera eitthvað þá er langlíklegast að það gerist á mjög svipuðum eða sama stað. Ef Brennisteinsfjallakerfið vildi fara að gera eitthvað, sem engin merki eru um, þá myndi það ekki vera tengt með beinum hætti. Ef við horfum á söguna þá er ekki oft þannig virkni að það gjósi á fleiri en einu kerfi á svipuðum tíma. Það er óvanalegt þó svo það sé ekki hægt að útiloka það.
Eldvirknin eða gosvirknin á skaganum, og ég vil ekki gera lítið úr henni, er þannig að við erum ekki að sjá stærstu og öflugustu gerð af eldgosum eins og við sjáum á Íslandi. Við erum ekki að sjá atburði eins og stórt Kötlugos eða þessa stærstu atburði sem verða. Jarðsaga skagans sýnir það að það er ekki eitthvað sem er að gerast. Það hafa orðið til á fyrri hluta nútíma býsna stór hraun og dyngjur. Við getum ekki útilokað að það geti gerst, það er bara alls ekki hægt, en síðustu árþúsundir hefur það ekki verið að gerast, heldur meira af hraunum í líkingu við það sem gerðist í Fagradalsfjalli. Auðvitað verðum við að vera við því búin að hér gerist stærri atburðir.“
Landris við Þorbjörn ekki beintengdur atburður
Að endingu, þetta landris sem varð hér vestan við Þorbjörninn og hringdi fyrstu viðvörunarbjöllunum, er það atburður sem tengist því sem varð í Fagradalsfjalli, eða er það stakur atburður?
„Hann er tengdur hvað það varðar að hann er upptakturinn að því að kvika er að leita upp og tengist því að spennur eru orðnar það miklar að það er farið að láta undan. Hann er því tengdur atburður en ekki beintengdur. Það er ekki beint orsakasamhengi þarna á milli. Við verðum að líta svo á að hann sé partur af þessari stærri atburðarás,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, í viðtali við Víkurfréttir.
Umbrot í Fagradalsfjalli
Þann 19. mars var ár liðið frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Fyrirboða eldgossins varð í raun fyrst vart í desember 2019 með mikilli skjálftavirkni í og við Þorbjörn sem hafði áhrif á allan Reykjanesskagann. Ástæða skjálftanna var kvika sem var að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið við Þorbjörn. Mat vísindaráðs almannavarna eftir fyrstu hrinurnar við Fagradalsfjall var það að atburðarás eins og var að hefjast á Reykjanesskaga gæti orðið mjög löng og kaflaskipt, þar sem dregur úr virkni tímabundið án þess að henni sé að fullu lokið. Sú varð raunin, segir á vef Veðurstofu Íslands, sem hefur tekið saman upplýsingar um eldsumbrotin við Fagradalsfjall.
Það var síðan þann 24. febrúar 2021 sem virknin byrjaði á ný, þegar krafmiklir skjálftar riðu um Reykjanesskagann og sem fundust víða um landið. Hrinan hófst með skjálfta við Keili sem var 5,7 að stærð og komu tugir þúsunda skjálfta í kjölfarið á næstu vikum. Síðustu dagana fyrir eldgosið var skjálftavirknin með minna móti og höfðu engir skjálftar mælst yfir 4 að stærð, en það hafði ekki gerst frá því að skjálftahrinan hófst. Það má segja að það hafi verið lognið á undan storminum. Þann 19. mars kl 20:45 opnaðist sprunga við Fagradalsfjall sem bauð upp á stórfenglega sjón í kvöldbirtunni. Eldgos var hafið.
Hraunflæðið úr þessu gosi er tiltölulega lítið á mælikvarða eldgosa sem orðið hafa á Íslandi. En vegna staðsetningar, nálægðar við byggð og aðgengi almennings og vísindamanna að gosstöðvunum, má segja að áhrif gossins og þær áskoranir sem því fylgdu hafi orðið meiri en með önnur nýleg gos.
Eldgosið var síbreytilegt. Það hefur fært vísindamönnum einstakt tækifæri til að auka við þekkingu sína en jafnframt gefið almenningi kost á því að komast í tæri við náttúruöflin. Það má kannski segja að eldgos séu jafn heillandi og þau geta verið hættuleg.
Þegar ný gosop tóku að opnast við upphaf gossins, reyndu vísindamenn að rýna í gögn til að sjá hvort mögulegt væri að spá fyrir um hvar og hvenær næsta opnun yrði. Fljótlega tókst að greina fyrirboða nýrrar opnunar með því að rýna í óróagröf. Þannig gat sólarhringsvakt Veðurstofunnar sent út viðvörun til viðbragðsaðila á svæðinu sem gátu brugðist við í tíma.
Þetta var ekki síst mikilvægt þar sem að eldgosið hafði mikið aðdráttarafl frá upphafi. Allt að 6.000 ferðamenn komu að því fyrstu vikurnar og mikill fjöldi þegar sumarið hófst og útlendingar gátu heimsótt Ísland á ný.
Síðast rann hraun frá eldstöðinni í Fagradalsfjalli þann 18. september en gosið stóð yfir í 182 sólarhringa. Kröftug jarðskjálftahrina hófst í lok september við suðurenda Keilis og stóð yfir í um mánuð. Landris mældist einnig á svæðinu eftir að dregið hafði verulega úr virkni gossins, þó engin aflögun á yfirborði hafi sést í tengslum við þá hrinu, sem væri merki um að kvika hafi færst nær yfirborðinu. Ekki er óalgengt að kvikusöfnun eigi sér stað undir eldstöðvakerfum í kjölfar eldgosa, án þess að kvika nái yfirborði. Önnur hrina varð í desember sem lauk um jólin. Þá varð kvikuinnskot sem náði ekki upp á yfirborð.
Á síðustu öld mældist veruleg virkni víða á Reykjanesskaganum á árunum 1927–1955 og 1967–1977. En virknin nú er sú mesta sem mælst hefur á Reykjanesskaganum frá upphafi. Vel er hugsanlegt að um sé að ræða atburðarás sem tekur ár eða áratugi, en erfitt er að spá fyrir um framvindu á þessu stigi. Það eina sem vitað er með vissu er að náttúran fer sínu fram. Áfram verður fylgst náið með þróun mála við Fagradalsfjall og á Reykjanesskaga, segir á vef Veðurstofu Íslands.