Laugardagur 26. apríl 2014 kl. 14:54

VefTV: „Vorum hræðilegir en sýndum karakter“

Viðtöl úr Röstinni

Grindvíkingar unnu mikinn baráttusigur á KR í gær þegar liðin mættust öðru sinni í rimunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta. Leikurinn fór fram í Röstinni þar sem mikil stemning ríkti en lokatölur voru 79-76 Grindavík í vil. „Í fjórða leikhluta snúum við þessu við. Sterk innkoma af bekknum og við sýndum mikinn karakter,“ sagði Sverrir þjálfari Grindvíkinga í leikslok í samtali við VF.

Ólafur Ólafsson sem átti fínan leik og bauð upp á sín hefðbundnu tilþrif, var á því að Grindvíkingar hafi verið fremur hikandi áður en þeir rönkuðu við sér í fjórða leikhluta. „Þetta er kannski einhver hræðsla. Við verðum bara að rífa okkur í gang og spila eins og menn,“ sagði Ólafur. Bakvörðurinn Daníel Guðmundsson sem átti góða innkomu af bekknum tók í sama streng og viðurkenndi fúslega að Grindvíkingar hafi verið seinir til í leiknum. „Við vorum hræðilegir. Við héldum áfram frá síðasta leik að vera lélegir. Við komum þó til baka og sýndum karakter. Það sýnir að við getum þetta alveg. Við ætlum að taka þennan titil aftur, það er engin spurning,“ sagði Daníel kokhraustur en viðtöl og tilþrif úr leiknum má sjá í myndbandinu hér að ofan.