Mánudagur 12. maí 2014 kl. 10:47

VEFTV: Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur

– ásamt Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur ásamt Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar verða þriðjudaginn 13. og fimmtudaginn 15. maí kl. 20:30 í Hljómahöllinni.
 
Karlakór Keflavíkur heldur sína árlegu vortónleika í 60 skiptið á þriðjudaginn 13. og fimmtudaginn 15. maí 2014 í Stapa í Hljómahöll. Kórinn varð 60 ára í desember síðastliðinn og efnir því til veglegra tónleika af því tilefni.
 
Stjórnandi kórsins er Helga Bryndís Magnúsdóttir.
 
Að þessu sinni hefur kórinn fengið til liðs við sig hina frábæru Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir stjórn Karenar Sturlaugssonog Geirþrúði Fanneyju Bogadóttur píanóleikara.
 
Þrír félagar úr karlakórnum munu syngja einsöng með kórnum á tónleikunum en það eru  þeir Ingólfur Ólafsson, Kristján Þ. Guðjónsson og Þorvarður Guðmundsson. Þeir hafa allir stundað söngnám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
 
Á tónleikunum verður boðið upp á mjög fjölbreytta söngskrá. Má þar nefna hefðbundin karlakóralög, rammíslensk kvæðalög, vinsæl dægurlög frá ýmsum tímum, lög úr þekktum söngleikjum eftir Andrew Lloyd Webber eins og Jesus Crist Superstar, The Phantom of the Opera og fleiri og þá verða þekktir óperukórar áberandi í dagskránni þar sem Lúðrasveit Tónlistarskólans fær að njóta sín. Þar má nefna Steðjakórinn úr Il Trovatore eftir Giuseppe Verdi, Pílagrímakórinn úr Tannheuser eftir Robert Wagner, Hermannakórinn úr Faust eftir Ch.Gounod, Veiðimannakórinn eftir Carl Maria von Weber og Gullnu vængir eftir Giuseppe Verdi.
 
Það er því óhætt að segja að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi á tónleikunum.