VefTV: Vilji til að vinna saman að verkefnunum - segir Steingrímur fjármálaráðherra
Nú ert þú nýbúinn að sitja borgarafund hjá okkur um atvinnumál og það var reyndar annar fundur á undan þar sem þetta eru mikil hitamál á svæðinu. Hvað finnst þér hafa verið það mikilvægasta á þessum fundi hjá ykkur í morgun?
„Ég held að það mikilvægasta sé í hvaða anda fundurinn sé haldinn og sú staðreynd að við komum hingað og fáum góðar móttökur og mikill samstarfsvilji hjá heimamönnum. Menn ætla að taka höndum saman, stjórnvöld og heimamenn, reyna vinna hér að ýmsum verkefnum og takast á við erfiðar aðstæður sem hér sannarlega eru. Mikið atvinnuleysi og ýmis félagsleg vandamál, mikill skuldavandi og fleira sem brennur á þessu svæði kannski umfram önnur í landinu og er þó víða erfitt á Íslandi í dag eins og allir vita, þannig að ég tel að þessi samstarfsandi og vilji manna til að slíðra sverðin og vinna saman sé langmikilvægustu skilaboð þessar fundar.“
Þið nefnduð mörg ágætist mál hérna í morgun en okkur fannst vera frekar lítið talað um stærsta atvinnuverkefnið sem Suðurnesjamenn hafa talað um, álverið sjálft, en það hefur verið talað um að það muni skapa mjög mikið af störfum og ekki bara fyrir Suðurnesjamenn. Skiptir það ekki miklu máli að klára svona stórt verkefni?
„Hér er um fjölþætt viðfangsefni að ræða en við fórum ekki ofan í einstök verkefni, þaðan að síður fórum við að deila um þau. Það eru skiptar skoðanir og hafa verið um ýmislegt. En vilji manna til að vinna saman engu að síður þrátt fyrir ólík viðhorf í einhverjum tilvikum, hann var undirstrikaður á þessum fundi. Þessi verkefni eru á mismunandi stigum og af mismunandi tagi og skipta öll máli, stór og smá og almennt viðfangsefni sem hér eru. Það ræðst yfirleitt af öðrum ástæðum en þeim sem eru í okkar höndum hvað verður til dæmis um þessi orkufreku verkefni sem hér hafa verið í undirbúningi, hvort sem það er álver, kísilverksmiðja, gagnaver eða annað því um líkt. Við erum einfaldlega að sjá til þess að stjórnvöld uppfylli sitt og það hafa þau þegar gert og það strandar að mínu mati ekki á þeim í þessum tilvikum. Það má kanski helst segja að það hafi verið vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð gagnaveranna. Ég var að kynna mönnum niðurstöðu í að minnsta kosti einum þætti þess máls sem er núna á leið til alþingis. Annað er ekki í okkar höndum vegna þess að það er hin merka stofnun ECA, Eftirlitsstofnun evrópska efnahagssvæðisins sem að þarf að samþykkja vissa hluti áður en að við getum gengið frá þeim. Þannig að við erum að vinna í málunum með þessu hugarfari að leysa þau mál sem að okkur snúa. Síðan verða þeir sem í hlut eiga og þeir sem ábyrgð bera á þessum áformum, þau sem ætluðu að afhenda þeim orku eða fjárfestingunni sjálfri, hvort verkefni klárast eða tefjast.“
Forráðamaður ECA verkefnisins var hérna um síðustu helgi. Töluðu þið eitthvað við hann?
„Nei, ekki ég að minnsta kosti, enda er málið ekki á mínu borði. Það er í höndum flugmálayfirvalda að vinna með það mál.“
Viltu eitthvað segja um það mál?
„Það kom mér ekkert á óvart sú niðurstaða sem varð hjá flugmálayfirvöldum að þetta væri ekki einfalt mál að fara skrá hér herloftflug. Það er ekkert til í okkar lögum og reglum um slíkt. Það þarf að fara mjög vandlega yfir það áður en menn færu að taka slíkt skref, hvaða áhrif það gæti haft á okkar stöðu í flugheiminum þar sem við höfum gríðarlegra hagsmuna að gæta, okkar orðspor í flugi, lög og reglur þeirra og skráning á borgaralegum flugferðum. Við Íslendingar rekum stóran flugflota að hluta til erlendis þannig að það er mikið í húfi að við gætum okkar eigin hagsmuna í þessum efnum og það skiptir Suðurnesin miklu máli. Sá mikli vöxtur sem að er boðaður núna í flugumferð til landsins og sætaframboði til Íslands á næsta ári er auðvitað ávísun á aukningu í ferðaþjónustu á störf í flugrekstrinum og afleidd störf og vonandi fellur talsvert af þeim til Suðurnesjamanna. Það er nú eitt af því sem er bjart yfir, það eru horfurnar í flugrekstrinum og ferðaþjónustunni á næstu misserum.“
Ertu bjartsýnn eftir þennan morgun hérna í Víkingaheimum fyrir hönd Suðurnesja?
„Já, ég er sannfærður um að þetta er gagnlegt, að menn undirstriki vilja sinn til þess að vinna saman að verkefnunum og andrúmsloftið skiptir líka máli. Vonandi færir þetta fólki heimsannir um það að það er ekki eitt og yfirgefið með sín vandamál, heldur ætla stjórnvöld, þ.e.a.s. bæði ríkisstjórn og forsvarsmenn sveitafélaganna hér á svæðinu að vinna saman, og það getur varla verið annað en til góðs.
Það hafa verið deildar meiningar um viðhorf til Suðurnesja vegna þess að meirihluti Sjálfstæðismanna sé víða við völd á Suðurnesjum en ekki inni í ríkisstjórninni núna, finnst þér það hafa eitthvað að segja?
„Nei, það á ekki að skipta neinu einasta máli nema síður sé. Menn eiga einmitt að sýna það í verki að þeir láti slíkt ekki trufla sig því það eru íbúarnir og samfélagið hér sem á heimtingu á því að menn vinni svona mál og láti ekki pólitískan skoðanamun eða afstöðu til einhverra einstakra tiltekinna mála aftra því að menn leggi sameiginlega góðum málum lið.“