VefTV: Vaxtarsamningurinn er mikikvægur í atvinnuuppbyggingu
Síðasta úthlutun úr Vaxtarsamningi Suðurnesja fór fram í bíósal Duushúsa í síðustu viku. Samtals hafa komið 100 milljónir króna frá ríkisvaldinu í gegnum þessa samninga til verkefna á Suðurnesjum á síðustu fjórum árum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir í viðtali við Víkurfréttir að fullur vilji sé til þess að vaxtarsamningar með einhverju sniði verði áfram, enda mikilvægt tæki til atvinnuuppbygginar.
- Hversu mikla þýðingu hefur Vaxtarsamningurinn fyrir svæðið sem hefur átt erfitt uppdráttar í atvinnulífinu?
„Ég held að þetta hafi haft gríðarlega þýðingu. Á síðustu fjórum árum hafa verið settar 100 milljónir króna í Vaxtarsamning Suðurnesja og annað eins hefur komið í mótframlög frá þeim sem hlotið hafa styrkinn. Þetta er því 200 milljóna króna innspýting í nýsköpun og atvinnuþróun á Suðurnesjum. Þetta er innspýting sem við sem vitum að vantaði. Ég sé það einnig á þeim verkefnum sem hér er verið að styrkja að þetta er gríðarlega mikilvægt. Ég vona svo sannarlega að við getum haldið þessu áfram því þetta er sprotar sem vaxa og geta orðið stórir og það eru fjölmörg verkefni hérna sem verður fróðlegt að fylgjast með“.
- Og þetta eru verkefni sem verða til í kreppunni?
„Það eru fjölmörg dæmi um það. Fólk sem hefur misst vinnuna og hefur þurft að leita sér að nýjum tækifærum. Það eru tækifæri sem felast í öllu og það er gott ef við getum nýtt tækifærin. Við þurfum líka að halda áfram. Það er ekki nóg að láta sprotana verða til. Það þarf að vökva þá og viðhalda þeim. Það þarf líka skapa atvinnulífinu hér og annars staðar þær aðstæður að það geti vaxið og dafnað þannig að við getum haldið áfram að sjá árangur af þessu starfi“.
- Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu verkefni?
„Við lærum af öllu sem við erum að gera. Þetta er dæmi um það að við erum að dreifa kröftunum og við erum að setja eggin í fleiri körfur. Hér var verið að styrkja 15 verkefni um samtals 25 milljónir króna. Verkefnin eru í alskyns greinum og þannig dreifum við kröftunum og búum til ný tækifæri og verkefni. Við skoðum árangurinn af þessum verkefnum nú þegar þessu tímabili er lokið og sjáum hvað við getum lært af þessu. Er eitthvað sem við getum gert betur og er eitthvað sem við getum lagt meiri rækt við? Það er sú vinna sem við erum í þessa dagana, að meta þá samninga sem verið er að klára og læra af þeim til framtíðar“.
- Verður framhald á Vaxtarsamningi Suðurnesja?
„Ég vona það svo sannarlega. Það eru breytingar á forræði samningsins með breytingum á ráðuneytaskipan. Það er fullur vilji innan ríkisstjórnarinnar að halda atvinnusköpunar- og nýsköpunarverkefnum sem þessum áfram. Hvort þetta heita vaxtarsamningar eða eitthvað annað. Það verður eitthvað af þessu tagi í framhaldinu, við munum sjá til þess því þetta hefur sýnt sig sem gríðarlega mikilvægt tæki til atvinnuuppbyggingar“.