Þriðjudagur 13. maí 2014 kl. 08:02

VefTV: „Unnum okkar heimavinnu“

Keflvíkingar kátir eftir sigur gegn Blikum

Menn voru kampakátir í leikslok á Nettóvellinum eftir sætan sigur gegn Breiðablik í Pepsi-deildinni í gær. Hljóðið í mönnum var gott enda tryggðu Keflvíkingar sé stöðu á toppi deildarinnar með 2-0 sigri. „Það er mjög mikilvægt að halda hreinu. Ef við gerum það þá kemur hitt oftast með. Sú var raunin í dag,“ sagði Keflvíkingurinn Einar Orri Einarsson í leikslok.

„Þetta er það sem við lögðum upp með gegn Blikum. Við unnum okkar heimavinnu og kláruðum leikinn,“ sagði markaskorarinn Elías Már sem var hógværðin uppmáluð í leikslok þrátt fyrir að skora tvö mörk í leiknum. Hann viðurkenndi þó að hann væri sennilega aðeins fljótari en Gunnleifur markvörður Blika, endi nýtti hann sér það í seinna markinu. „Hann er aðeins eldri en ég þannig að ég ákvað að fara bara á hann. Ég átti nokkur skref á hann,“ sagði Elías léttur í bragði.

Kristján Guðmundsson þjálfari var sáttur við varnarskipulag liðsins og sóknarleikurinn var að hans mati ágætur. Viðtöl við Keflvíkinga má sjá hér að ofan.