VefTV: Tvíeggja orðagrín
Félagarnir Arnór Sindri Sölvason and Jón Bjarni halda úti nýjum sketsaþáttum á Fésbókinni undir heitinu Tvíeggja.
„Við ætluðum upprunalega bara að hafa þetta fyrir vini okkar og fólkið í kringum okkur en núna er þetta búið að breiðast út til Reykjavíkur og lengra. Erum komnir með um 1300 like á rúmri viku og erum alveg ótrúlega þakklátir,“ segir Jón Bjarni í samtali við Víkurfréttir og bætir við: „Fyrst að þetta er búið að breiðast svona hratt út þá finnum við fyrir því að við þurfum að vera mjög duglegir að búa til fleiri sketsa og setja fleiri inn á netið. Þetta ýtir alveg vel á okkur og drifkrafturinn í okkur verður alveg rosalegur, enda erum við alltaf að fá hugmyndir og svo erum við svo heppnir að fólk sendir okkur skemmtilegar hugmyndir sem að við ætlum okkur að vinna með“.
Orðagrín er mjög sterkur þáttur í sketsunum þeirra félaga en það er ekki það eina sem að þeir ætla að bjóða upp á.
„Við erum meira að segja farnir að heyra að ung grunnskólabörn séu farin að leika sketsana okkar í skólanum, við förum alveg hjá okkur í þessu öllu saman. En við erum bara rétt að byrja og það er mun meira á leiðinni“.
Meðfylgjandi er tengill á einn skets hjá þeim félögum. Fólk er hvatt til að horfa á myndbandið alveg til enda.