Fimmtudagur 20. janúar 2011 kl. 12:16

VefTV: Titlarnir eftirminnilegastir og villurnar margar!

Það voru tímamót hjá Jóni Norðdal Hafsteinssyni í síðasta leik með Keflavík í körfubolta gegn Snæfelli en pilturinn var að spila sinn 500. leik fyrir félagið. Hann byrjaði að spila með Keflavík tímabilið 1997-1998 og hefur allar götur síðan spilað fyrir sitt heimalið og verið einn af lykilmönnum liðsins síðustu ár. Jón kemst því í eftirsóttan Keflavíkurhóp sem samanstendur af 4 öðrum leikmönnum með þennan titil en það eru þeir Gunnar Einarsson, Jón Kr. Gíslason, Falur Harðarson og Guðjón Skúlason sem þjálfar liðið nú í dag.

„Eftirminnilegast á ferlinum eru allir Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitlarnir, svo auðvitað úrslitarimmurnar og sigurleikirnir. Þetta er allt mjög eftirminnilegt og erfitt að gera upp á milli,“ sagði Jón Norðdal. Keflavík hefur eins og önnur topplið fengið til liðs við sig útlendinga á hverju tímabili en þeir hafa verið misgóðir. „Það hafa margir góðir útlendingar spilað fyrir Keflavík og einn af þeim betri er nýlega kominn, Thomas Sanders. En þeir sem eru mér efst í huga núna eru Anthony Glover, Damon Johnson og Derrick Allen sem er að gera frábæra hluti í Þýskalandi.“

Keflavík hefur verið á toppi deildarinnar í fjöldamörg ár og er stór partur af velgengninni þjálfaranum að þakka. En hver ætli hafi verið sá strangasti á tímabili Jonna? „Sigurður Ingimundarson kemur sterklega til greina en Guðjón Skúlason sem þjálfar okkur núna er ekkert síðri. Ég held samt að Siggi fái titilinn því hann skeytir meira skapi en Gaui,“ sagði Jonni hvíslandi.

Jón Norðdal er mikill varnarmaður og er einn af þeim betri á landinu. Það fylgir því þó að villurnar verða oft fleiri hjá varnarmönnunum. „Villurnar hjá mér í þessum 500 leikjum eru sennilega mjög margar og það þarf sennilega að setja þetta upp í formúlu til að fá rétta tölu út.“

Margir leikmenn sem Jonni spilaði með á sínu fyrsta tímabili eru ekki lengur hjá félaginu eða búnir að leggja skóna á hilluna. Þó eru þrír leikmenn enn að spila og í fullu fjöri en þeir eru Gunnar Einarsson, Gunnar Stefánsson og Magnús Gunnarsson sem gekk aftur til liðs við Keflavík en hann spilaði með Njarðvík fyrr á tímabilinu. Gunnar Einarsson, félagi Jonna ber fleiri leiki á bakinu með félaginu en þeir eru að nálgast 800. „Ég veit ekki hvort ég nái honum í fjölda leikja en þetta vélmenni ætlar greinilega ekkert að fara að hætta,“ sagði Jonni aðspurður hvort hann muni ná Gunnari í leikjafjölda.

Heimavöllur Keflavíkur er Toyotahöllin á Sunnubraut og hangir þar í salnum risaplakat af Jonna úr auglýsingu Landsbankans. „Þetta er ástæðan fyrir hruni Landsbankans en þeir borguðu svona gríðarlega vel,“ sagði Jonni hlæjandi.

Jón Norðdal er aðeins 29 ára og á mörg ár eftir í boltanum. Á meðan líkaminn leyfir, skemmtilegir strákar eru í liðinu og þjálfarinn góður þá heldur hann óstöðvandi áfram. „Blessaður, ég get spilað þangað til ég verð 45 ára,“ sagði Jonni að lokum.

[email protected]

Ljósmyndir: Davíð Örn Óskarsson