Föstudagur 18. mars 2011 kl. 11:32

VefTV: „Stórhættuleg þessi fyrsta umferð,“ sagði Páll Axel

„Þetta var mikilvægur leikur og mikil pressa á að vinna fyrsta leikinn í þessari seríu,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga en þeir byrjuðu úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í körfubolta frábærlega og lögðu Stjörnuna í gærkvöldi 90-83 á heimavelli þeirra gulu.

„Þeir komust held ég þremur stigum yfir en við vorum menn gátum tekið því og héldum fókus út leikinn.“ Næsti leikur í þessari rimmu er á sunnudaginn á heimavelli Stjörnunnar. „Við ætlum að koma fílefldir til leiks, með sömu stemningu og þá erum við í góðum málum,“ sagði Helgi.

Páll Axel Vilbergsson var í stuði í seinni hálfleiknum og setti þrjá þrista í röð fyrir heimamenn en hann hefur ekki verið upp á sitt besta í síðustu leikjum. „Loksins hitti ég. Mér fannst ég þurfa að stíga upp í seinni hálfleik þar sem ég átti ekki neinn stjörnu fyrri hálfleik og það virkaði í þetta skiptið,“ sagði Páll Axel. „Mjög gott að vinna fyrsta leik heima. Þetta er stórhættuleg þessi fyrsta umferð. Það má ekkert misstíga sig þar sem það þarf aðeins tvo leiki til að komast áfram. Við eigum eftir að fara á þrælerfiðan útivöll og viljum ekki þurfa að koma hingað aftur í úrslitaleik, svo við ætlum okkur á klára þetta í næsta leik.“

Ljósmyndir frá leiknum má finna á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.

[email protected]