VefTV: Oddný fór til Parísar í lokaferð eftir 42 ár í háloftunum
Það er ekki hægt að sjá að hún sé að halda upp á 67 ára afmælið. Oddný Björgólfsdóttir er myndarleg kona og manni finnst hún yngri þegar maður talar við hana. Hún er vel með á nótunum og skemmtilegt fas hennar geislar af henni. Svo er alltaf stutt í brosið. Flugfreyjur þurfa jú að kunna að brosa.
„Er þetta síðasta ferðin þín. Ég verð að fá að smella kossi á þig Oddný mín,“ sagði Einar Gunnarsson, einn af eldri og reyndari starfsmönnum Fríhafnarinnar þegar Oddný kíkti þar við á leið sinni út í flugvél. Klukkan var rúmlega sex. Einar og fleiri starfsmenn í Leifsstöð þekkja vel þessa viðkunnanlegu flugfreyju.
Stuttu seinna var hún komin út að hliði í Leifsstöð. Jenný Waltersdóttir, stöðvarstjóri í Leifsstöð og Halldór Halldórsson, starfsmaður IGS voru mætt. Jenný laumaði afmælistertu út í flugvél sem skyldi snædd í París. Samstarfsmenn Oddnýjar í síðustu ferðinni komu síðan hver á fætur öðrum. Flugfreyjurnar Þuríður Vilhjálmsdóttir, Henrietta Gísladóttir og Margrét Þórarinsdóttir og Axel Guðmundsson flugþjónn. Flugstjóri var Reynir Ólafsson og flugmaður Páll Georgsson. Það urðu fagnaðarfundir og Oddný nældi rauðri rós í barm félaga sinna áður en haldið var út í vél.
París í lokaferðinni
París var Oddnýju hugleikin því þar stundaði hún nám sem ung stúlka. Það var því létt mál hjá henni að lesa tilkynningu á frönsku á leiðinni enda konan altalandi á því tungumáli. Það var hvítt yfir jörðu þegar við nálguðumst lendingu og flugum yfir þessum hluta meginlands Evrópu. Frakkland var með hvíta ábreiðu sem farþegar gátu skoðað út um gluggann þegar Boeing þotan Eldborg lenti í París á hádegi á staðartíma.
Farþegar fóru frá borði og þá var tækifærið notað og slegið upp lítilli afmælisveislu. Samstarfsmenn Oddnýjar færðu henni afmælispakka og hún færði þeim öllum líka pakka. Stöðvarstjórinn í París kom og fleiri franskir starfsmenn. Þeim var að sjálfsögðu boðið í afmælistertu. Þeir færðu henni gjafir, frönsk eðalvín. „Ég vissi ekki að maður fengi pakka í afmælum hjá öðrum,“ sagði Þuríður Vilhjálmsdóttir, samstarfskona Oddnýjar í rúma þrjá áratugi. Þuríður er alltaf kölluð „Tíví“ meðal vina sinna. Hún var með Oddnýju í flugslysinu í Sri Lanka.
Seinkanir algengar
Oddný settist niður með okkur eftir góða afmælisköku og kaffi. Við báðum hana að rifja aðeins upp hvernig þetta hafi verið í fluginu fyrir rúmum fjörutíu árum, þegar hún var að byrja.
„Fyrst þegar ég byrjaði voru alltaf seinkanir í flugi og maður reiknaði bara með því en nú er öldin önnur. Það eru eiginlega aldrei seinkanir núna,“ segir Oddný sem flaug aðallega á milli Lúxemborgar og New York fyrstu árin með viðkomu í Keflavík.
En hvernig var að vera flugfreyja fyrir rúmum fjórum áratugum síðan?
„Hræðilegt,“ skellir Oddný uppúr og heldur áfram og verður tíðrætt um réttindi flugfreyja á þessum tíma. „Kvenfólk mátti ekki giftast eða eiga börn, ekki vera þrítugar eða vera með gleraugu. Svona var tíðarandinn. En þetta breyttist með tímanum og ekki síst vegna framgöngu formanns flugfreyjufélagsins okkar, hennar Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra. Hún vann vel í réttindabaráttu freyjanna í háloftunum.
Mannstu ennþá eftir fyrstu ferðini þinni?
„Já, já. Hún var til New York í júlí 1968. Skemmtileg ferð og það var upplifun að koma til stórborgarinnar.“ Oddný segir að það hafi verið mjög mikil þjónusta um borð, góður matur og vín, líkjör á eftir með kaffinu fyrir þá sem vildu.
„Vélarnar voru alltaf fullar af Ameríkönum. Það þótti til tíðinda þegar Íslendingar voru um borð. En það hefur líka breyst. Nú eru vélarnar fullar af Íslendingum.“
Full vél af svörtu fólki
Er einhver ferð sem þú manst vel eftir að ógleymdri Sri Lanka flugferðinni?
„Já, þegar ég fór í fyrsta skipti í pílagrímaflug til Jedda. Það var 50 klst. seinkun og við fengum hvorki vott né þurrt, hvað þá föt til skiptanna. Ég gleymi því síðan aldrei þegar vélin var tilbúin til brottfarar og hún fylltist af svörtu fólki. Það var mjög sérstakt á þessum tíma.“
Oddný segir að eftir flugslysið á Sri Lanka (sjá umfjöllun á næstu opnu) hafi aldrei neitt annað komist í huga hennar en að komast aftur í flugið.
„Ég var óskaplega fegin að geta komið aftur í hópinn og hitt mína gömlu félaga. Það er alveg ótrúlegt hvað það myndast sterk vinátta hjá starfsfólkinu. Nándin er svo mikil í þessari vinnu og fólk er mikið saman hér og þar. Ég var í skýjunum í orðsins fyllstu merkingu – að komast aftur í flugið.“
Var sem sagt ekkert erfitt að fara aftur í háloftin eftir slysið?
„Nei, nei. Strákarnir okkar frammí eru svo klárir,“ segir hún og hlær.
Þegar við spyrjum Oddnýju út í farþegana en þeir skipta þúsundum sem hún hefur þjónað segir hún oft hafa verið mikið um drykkju um borð, sérstaklega fyrr á árum. Mikil breyting hafi orðið eftir 11. september 2001.
„Það var oft fyllerí og læti í gamla daga en í dag er það ekki liðið. Þetta er miklu betra núna í seinni tíð og það hefur eitthvað nátttúrulega að segja að Íslendingar ferðast oftar. Spennan er aðeins minni.“
Þegar Oddný byrjaði var hún eina flugfreyjan frá Suðurnesjum en þrír karlmenn störfuðu hjá félaginu, Reynir Eiríksson, flugstjóri, Skúli Guðjónsson, aðstoðarflugmaður og Kristján flugvélstjóri. „En þetta hefur breyst. Við hittumst nýlega flugfreyjur sem erum frá Suðurnesjum og vorum tuttugu en við töldum tíu aðrar þannig að þetta hefur breyst mikið.“
Aðspurð um uppáhaldsstaðina er Oddný ekki í vafa. „Það eru Boston og Minniapolis og svo er alltaf gaman að koma til New York. En það er mikill erill þar en er í lagi því þetta eru stuttar ferðir.“
Draumastarfið
Er þetta draumastarf?
„Jú, algerlega. Ég myndi mæla með því við hvern sem er. Þetta er samt ekki glansstarf. Oft mjög erfitt. Maður þarf virkilega að undirbúa sig vel fyrir hvern einasta starfsdag og maður verður að vera samvinnuþýður. Að geta unnið með öðrum. Það koma oft upp erfið mál þarna í háloftunum. Þetta er ekki alltaf dans á rósum“.
Oddný fékk tækifæri til að koma að undirbúningi starfsloka sinna hjá félaginu. Hún fékk að velja þá sem hún vildi hafa með sér í síðustu ferðunum. Hún fékk t.d. hinar flugfreyjurnar sem lentu í flugslysinu með henni á Sri Lanka, þær Jónínu, Kristínu og Þuríði, í eina ferð til Minniapolis. „Ég fékk að ráða ferðunum mínum síðustu tvo mánuðina og valdi auðvitað bestu vini mína með mér. Það var yndislegt. Við skáluðum í kampavíni og borðuðum góðan mat. Frábær endir á starfsferlinum,“ segir Oddný.
Heimferðin frá París gekk vel. Oddný sinnti sínum störfum af kostgæfni eins og undanfarin 42 ár og það var ekki að sjá að hún væri neitt að slá af þó árin væru orðin 67.
Það var vel við hæfi að hún kveddi með því að tilkynna farþegum um að stutt væri í lendingu í Keflavík. Það gerði hún á þremur tungumálum, íslensku, ensku og frönsku. Axel flugþjónn sagði í upphafi heimferðarinnar frá tímamótum í lífi Oddnýjar og Páll flugþjónn bætti við undir lokin og þakkaði henni fyrir frábæra frammistöðu í öll þessi ár. Eftir lendingu tóku þær Rannveig Eir Einarsdóttir og Anna Margrét Jónsdóttir frá Icelandair á móti Oddnýju og færðu henni blómvönd í tilefni dagsins. Þórólfur sonur hennar og Eiríkur Beck sonur hans og Jóhann bróðir Oddnýjar biðu hennar einnig í Leifsstöð. Blómahafið og fjörið var rétt að byrja í upphafi starfsloka. Oddný fór með félögum sínum og skáluði fyrir lokaferðinni fyrir utan Leifsstöð og síðan biðu hennar nokkrir tugir vina og ættingja í óvæntri afmælisveislu í íbúðinni hennar.
Síðustu ferðinni var lokið.
Lokapartýið var hafið.
Oddný fékk afmælisgjafir í lokaferðinni, m.a. frá frönskum vinum sínum á flugvellinum í París.
Í flugstjórnarklefanum með Guðjóni Ólafssyni, flugstjóra og Páli flugmanni.
Í síðustu ferðinni sinni til Parísar 9. des. 2010
---
Oddný var í viðtali í TVF, tímariti Víkurfrétta árið 2001 þar sem hún rifjar upp sögu sína, bernsku, menntun og síðan feril sinn hjá Icelandair og sérstaklega þegar hún lenti í flugslysinu hræðilega á Sri Lanka 1978.
„Mamma er á lífi, Þórólfur minn“
Hún fann að hún gat ekki hreyft sig. Hún leit á flugvélarflakið og gerði sér grein fyrir því að flugmennirnir gætu ekki verið á lífi og hún hélt að hún hefði ein lifað slysið af. Þá sá hún Þuríði, flugfreyju koma hlaupandi út úr eldinum.
FLUTTI TIL KEFLAVÍKUR 18 ÁRA
Oddný Björgólfsdóttir fæddist í miðbæ Reykjavíkur árið 1943. Hún er dóttir Björgólfs Stefánssonar og Unnar Jóhannsdóttur og er hún elst fjögurra systkina. Fjölskyldan fluttist til Keflavíkur árið 1961 þegar hún var 18 ára gömul. Oddnýju fannst hljótt í Keflavík því hún var orðin vön umferðinni og hávaðanum sem borginni fylgir. Fjölskyldan bjó á Háholti sem þá var efsta gatan í Keflavík og Oddný hlær þegar hún segir að hægt hafi verið að fara í berjamó hinum megin við götuna.
Oddný gekk menntaveginn í miðbæ Reykjavíkur; hún hóf nám í Miðbæjarskólanum síðan fór hún í Gagnfræðaskólann í Vonarstræti og loks í Menntaskólann í Reykjavík á stærðfræðibraut. Hún hugðist verða tannlæknir og lauk stúdentsprófi vorið 1963. Haustið eftir stúdentspróf fékk hún vinnu hjá Birni Ingvarssyni lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli.
Ári seinna fór Oddný til Parísar og bjó í sendiherrabústað Péturs Thorsteinssonar og eiginkonu hans, Oddnýjar, sem er frænka Oddnýjar. Í París sótti hún tíma í Sorbonne háskóla ásamt því að kenna frænda sínum að lesa íslensku. Um haustið fór hún heim til Íslands og gerðist einkaritari Grétars Kristjánssonar hjá Loftleiðum. Þar kynntist hún flugheiminum í fyrsta sinn en einnig var hún við nám í Háskóla Íslands í ensku, frönsku og latínu.
STÓRA ÁSTIN
24 ára gömul kynntist Oddný Þórólfi Beck. Hann var þá fjórum árum eldri en eins og menn muna var Þórólfur einn fræknasti knattspyrnumaður þjóðarinnar.
Hann var annar Íslendingurinn sem varð atvinnumaður í knattspyrnu og lék m.a. með Glasgow Rangers.
Hann var þá talinn einn fremsti leikmaður skosku knattspyrnunnar og Glasgow Rangers greiddi fyrir hann hærri upphæð en félagið hafði nokkurn tíma greitt fyrir leikmann. Þórólfur var KR-ingur og hóf að leika með meistaraflokki aðeins 17 ára. Hann varð mikill markakóngur og fastamaður í landsliði Íslands í knattspyrnu í mörg ár. En sól hans var farin að lækka á lofti þegar þau Oddný kynntust og átti Þórólfur, sem lést í desember 1999, við veikindi að stríða síðustu 30 árin. Oddný og Þórólfur voru par í nokkur ár en vinir alla tíð. Þau eignuðust saman soninn Þórólf, sem er kvæntur Vilborgu Einarsdóttur, dóttur Einars Júlíussonar söngvara. Barnabörn Oddnýjar eru tvö: Ólöf Oddný Beck, 15 ára, og Eiríkur Beck, 10 ára. Þau skipa stóran sess í lífi ömmu.
PÍLAGRÍMAFERÐIRNAR
Eins og áður segir byrjaði Oddný sem einkaritari hjá Loftleiðum en sumarið 1966 hóf hún störf sem sumarfreyja þá 23 ára gömul og ætlaði hún sér að vinna sem flugfreyja á sumrin og í fríum frá náminu. Eftir háskólaprófið sneri hún sér þó alfarið að fluginu. Árið 1975 hófu Loftleiðir pílagrímaflug með múslima til borgarinnar Mekka, sem er fæðingarstaður Múhameðs, leiðtoga múslima.
Oddný var meðal fyrstu freyjanna sem flugu í hinu svokallaða pílagrímaflugi. Flogið var í tveimur áföngum: fyrst var fólkið flutt til Jedda í Sádi -Arabíu en síðan sótt þangað og flutt heim.
FLUGSLYSIÐ Á SRI LANKA
Þó að áratugir séu liðnir gleymir Oddný seint þessum degi, 15. nóvember 1978. Þann dag vaknaði hún ásamt áhöfn sinni á hóteli í Lúxemborg, þaðan átti að fljúga til Aþenu. Síðan var ferðinni heitið til Jedda í Sádí-Arabíu.
Í Jedda komu um 249 farþegar um borð en í áhöfn voru 13. Oddný minnist þess hversu full vélin var, öll sæti upptekin. Millilenda átti á Sri Lanka, sem er eyríki í Indlandshafi, og þar átti síðan áhöfn undir stjórn Dagfinns Stefánssonar (sá hinn sami og hafði lent í Geysisslysinu) að taka við vélinni. Veður var slæmt, mikil rigning, þrumur og eldingar. Flugstjórinn tilkynnti lendingu og Oddný og Jónína Sigmarsdóttir, samstarfskona hennar, settust í sætin í eldhúsinu. Oddný sat við útgöngudyr með smáglugga. Hún segist hafa fundið að eitthvað væri að, flugvélin flaug mjög lágt og hún heyrði undarleg högg sem dundu á vélinni. Hún frétti seinna að þá hafði vængurinn verið að sópa á undan sér trjám. Oddný sagði eitthvað við Jónínu og henni fannst hún verða að opna hurðina. Oddný rankaði síðan við sér þar sem hún hélt dauðahaldi í hurðina úti í skógi. Hurðin lá á leifum af mannslíkama og þegar hún leit til baka sá hún vélina í björtu báli. Hún man að hún hugsaði um son sinn Þórólf og sagði við sjálfa sig „Mamma er á lífi, Þórólfur minn“.
Hún fann að hún gat ekki hreyft sig. Hún leit á flugvélarflakið og gerði sér grein fyrir því að flugmennirnir gætu ekki verið á lífi og hún hélt að hún hefði ein lifað slysið af. Þá sá hún Þuríði, flugfreyju, (Vilhjálmsdóttur) koma hlaupandi út úr eldinum. Hún reyndi að draga Oddnýju lengra frá flakinu en hún var sjálf slösuð, með skurð á hendi sem mikið blæddi úr. Þær lágu ofan í polli og Oddný hrópaði á Þuríði að hlaupa burt en Þuríður vildi ekki fara frá henni. Síðan var Oddný dregin í burtu af nokkrum innfæddum og sett upp í jeppa af hermönnum úr breska flughernum sem keyrðu hana og fleiri slasaða í sjúkraskýli.
Þessa fyrstu nótt var Oddnýjar saknað. Fáir lifðu slysið af; aðeins 5 Íslendingar og af þeim hafði Oddný slasast mest. Einnig lifðu um 70 pílagrímar, meira eða minna slasaðir.
Daginn eftir var hún sett upp í flutningabíl ásamt öðrum farþegum. Einhvers staðar stöðvaðist bíllinn og þar var áhöfn Dagfinns sem átti að taka við vélinni í Sri Lanka. Kristínu Geirsdóttur, flugfreyju, fannst Oddný svo föl og líflaus að hún fór úr skokknum, breiddi yfir hana og kyssti hana sem hún væri látin.
Oddný var lögð inn á sjúkrahús í Sri Lanka, þar sem fólk gat gengið inn af götunni og skoðað þá slösuðu en lítið var gert til að hjúkra þeim þar til Katrín Fjeldsted, læknir, sem þá var starfandi í Lundúnum kom til að aðstoða „bara í lopapeysunni með vegabréfið“ segir Oddný brosandi. Hún lét flytja Íslendingana á annað sjúkrahús sem var fyrir heldri stéttir. Þar var hugsað vel um sjúklingana og þar komust læknarnir að því að Oddný var með innvortis blæðingu en hún var einnig með brotinn spjaldhrygg á tveimur stöðum og mikið marin. Segist Oddný aldrei hafa séð slíkt áður, hún var öll svört. Læknarnir spurðu hana í hvaða blóðflokki hún væri og sagði hún þeim það. Þá sögðust þeir því miður ekki eiga blóð í þeim blóðflokki og átti þar við að sitja þar til frænka Oddnýjar, sendiherrafrúin kom í heimsókn með manni sínum; þá var skyndilega til nóg af blóði handa Oddnýju.
Oddný hlær að þessu og segir að stundum sé gott að geta notið góðs af því að vera í klíkunni! Um það bil mánuði seinna var Oddný flutt heim til Íslands og lagðist inn á Landspítalann. Þar lá hún í um hálft ár.
LAGAÐI GÖNGULAGIÐ Á SKÍÐUM
Á Landspítalanum öðlaðist Oddný aukinn þrótt dag frá degi. Hún var reist upp í rúminu um örfáa sentimetra á dag; hún hafði verið rúmföst svo lengi að þessir sentimetrar ollu henni gríð- arlegum sársauka. Spjaldhryggsbrotin höfðu gróið skakkt saman enda hafði læknishjálpin ekki verið sem best á Sri Lanka. Síðan tók við mikil endurhæfing þar sem Oddný þurfti meðal annars að læra að ganga á ný.
Þegar hún tók fyrstu skrefin var hún svo útskeif að brugðið var á það ráð að láta hana á gönguskíði fyrir utan spítalann svo að hún gengi rétt. Smátt og smátt varð hún betri og eftir hálft ár á spítala var hún útskrifuð þó að læknarnir vildu ekki alveg sleppa henni. Hún var síðan dregin beint til Bahamaeyja þar sem hópur af flugfreyjum voru í fríi. Nú gapir blaðamaður og spyr hvort að hún hafi nú ekki verið hrædd við að fljúga?!
En svarið kemur strax: „Nei, ég hef aldrei verið hrædd við að fljúga. Flugmennirnir eru svo samviskusamir og indælir menn sem eru undir stöðugu eftirliti. Miklar ráðstafanir eru gerðar til þess að sjá til þess að flugvélin og allur búnaður sé í lagi og er þetta allt athugað mörgum sinnum fyrir brottför.“
Aðeins um 16 mánuðum eftir slysið var Oddný farin að starfa á ný sem flugfreyja. Í dag er hún enn í fullu starfi og hefur gaman af þó hún eigi stundum í erfiðleikum vegna fótanna.
SÁTT VIÐ LÍFIÐ OG TILVERUNA
Oddný er sátt við lífið og tilveruna og hefur lært að lifa með fötlun sinni en þarf ávallt að sinna endurhæfingu. Þá fer hún oft í líkamsrækt og lyftir lóðum til að styrkja sig. En hún er 35% öryrki; hún getur til dæmis ekki staðið á tám og þarf að vanda valið á skóm.
Oddný telur sig aldrei hafa verið öruggari í flugi en nú eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum. Öryggismál voru hert mjög mikið.
Þó flugfreyjuhlutverkið sé mikilvægt í lífi Oddnýjar er þó augljóst að ömmuhlutverkið er henni mjög hjartfólgið. Já - amma er svo sannarlega á lífi.