VefTV: Mokuðu upp makríl fram á síðustu stundu
– „Leyfa á smábátasjómönnum að veiða makríl áfram“
Mikið er af makríl með ströndinni allt frá Garði og a.m.k. inn undir Voga. Sjá má sjóinn krauma þar sem makríllinn veður í yfirborðinu. Veiðar smábáta á makríl voru hins vegar stöðvaðar frá og með síðasta föstudegi.
Fram að því mátti sjá mikinn fjölda báta af veiðum alveg upp í landsteinum. Bátarnir komu svo fullir af fiski í land á kvöldin og makríllinn skapaði mikla vinnu í fiskvinnslunni hér suður með sjó. Meðfylgjandi myndskeið var tekið síðdegis sl. fimmtudag en þá var síðasti veiðidagurinn.
Þingflokkur Samfylkingarinnar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, að endurskoða ákvörðun sína um að stöðva makrílveiðar smábáta sem tók gildi nú í byrjun september.
Leyfa á smábátasjómönnum að veiða makríl áfram. Mörg dæmi eru um að þeir hafi nýlega farið út í fjárfestingar vegna veiðanna og kemur þessi ákvörðun þeim hópi sérstaklega illa. Þá er rétt að hafa í huga að aflaverðmæti makríls sem veiddur er á þessum tíma af smábátum er með því hæsta sem gerist. Engin rök hafa verið sett fram fyrir því að fallið verði frá þeirri ákvörðun að stöðva veiðarnar, segir í ályktuninni.